Haukar lögðu Snæfell í fyrri leik undanúrslita VÍS bikarkeppni kvenna í Laugardalshöllinni í kvöld, 98-62.

Bikarmeistarar síðustu tveggja ára eru því komnar áfram í úrslitaleik keppninnar, en hver það verður sem liðið mætir skýrist í seinni viðureign kvöldsins, þar sem að Stjarnan og Keflavík eigast við.

Gangur leiks

Eftir mjög svo hetjulegar upphafmínútur, þar sem liðið meða annars leiddi meira en minna í fyrsta leikhlutanum, gefur Snæfell verulega eftir undir loka fjórðungsins og er munurinn 11 stig fyrir annan, 27-16. Haukar halda svo áfram að bæta við forskot sitt undir lok fyrri hálfleiksins. Fara langleiðina með leikinn í öðrum leikhlutanum, þar sem munurinn er 23 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 55-32.

Fyrir Hauka var fyrrum leikmaður Snæfells Tinna Guðrún Alexandersdóttir stigahæst í fyrri hálfleiknum með 13 stig á meðan að Cheah Emountainspring Rael Whitsitt var með 17 stig fyrir Snæfell.

Enn bæta bikarmeistarar Hauka við forskot sitt í upphafi seinni hálfleiksins. Snæfell nær þó aðeins að halda í við þær undir lok þriðja leikhlutans og er munurinn fyrir þann fjórða 28 stig, 80-52. Lokaleikhluti leiksins var svo frekar rislítill sóknarlega hjá báðum liðum. Úrslitin nánast örugg nokkuð fyrr í leiknum, 36 stiga sigur Hauka, 98-62.

Kjarninn

Eins og margir bjuggust kannski við var viðureign kvöldsins eilítið leikur kattarins að músinni. Með fullri virðingu fyrir Snæfell og þeim frábæra árangri sem fyrstu deildar félag þeirra nær annað árið í röð með ferð í þessi undanúrslit, þá eru Haukar einfaldlega með eitt besta lið landsins í dag og var gæðamunurinn samkvæmt því. Auðvitað áttu Haukar að klára þennan leik og það er nokkuð erfitt að hæla þeim eitthvað mikið fyrir að gera það. Hinsvegar er hægt að hæla þeim fyrir að vera nú komnar í þá stöðu að geta með sigri í úrslitaleiknum orðið aðeins annað félagið í sögunni til þess að vinna titilinn þrjú tímabil í röð, en Keflavík vann titilinn 1987 til 1990 og aftur 1992-1998.

Atkvæðamestar

Fyrir Hauka var Tinna Guðrún Alexandersdóttir atkvæðamest í leiknum með 26 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar. Fyrir Snæfell var það Cheah Emountainspring Rael Whitsitt sem dró vagninn með 33 stigum og 10 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)

Myndasafn (Márus Björgvin)

Myndasafn (Þorsteinn)