Nýkrýndir VÍS-bikarmeistarar Hauka tóku á móti Val í Subwaydeild kvenna í gærkvöldi. Fyrir leik voru Hafnfirðingar í öðru sæti deildarinnar með 13 sigra og tvö töp, en Valskonur fylgdu fast á hæla þeirra í þriðja sæti með 12 sigra og 3 töp.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, sem endurspeglaðist í stöðunni að honum loknum, 17-17. Valskonur komu hins vegar sterkari inn í annan fjórðung, þar sem þær héldu Haukum í einungis 10 stigum. Höfðu gestirnir sjö stiga forystu í hálfleik, 27-34.

Haukar klóruðu örlítið í bakkann í þriðja leikhluta, en í lokafjórðungnum kláruðu Valskonur dæmið með 10 stiga sigri, lokatölur 61-71. Valskonur jafna Hauka í öðru til þriðja sæti deildarinnar með sigrinum, en bæði lið hafa nú 13 sigra og 3 töp.

Stigahæst í liði Hauka var Keira Robinson með 21 stig en í liði Vals var Kiana Johnson með þrefalda tvennu, 15 stig, 10 fráköst og 11 stoðsendingar.

Næsti leikur Vals er 25. janúar á heimavelli gegn ÍR. Sama kvöld fara Haukar í Blue-höllina í Reykjanesbæ, þar sem þær mæta Keflavík.