Haukar lögðu KR í kvöld í 14. umferð Subway deildar karla, 103-101. Eftir leikinn eru Haukar í 4. sæti deildarinnar með 20 stig á meðan að KR er í 12. sætinu með 4 stig.

Fyrir leiks

Í fyrri leik liðanna á tímabilinu höfðu Haukar gífurlega öruggan 25 stiga sigur í Vesturbænum, 83-108. Í þeim leik var Norbertas Giga atkvæðamestur fyrir Hauka með 30 stig og 13 fráköst. Fyrir KR skilaði Þorvaldur Orri Árnason með 23 stigum og 5 fráköstum.

Gangur leiks

Heimamenn í Haukum voru með yfirhöndina á fyrstu mínútum leiksins. KR gerir þó vel að hanga í þeim og er munurinn aðeins 4 stig eftir fyrsta leikhluta, 22-18. Bæði lið að nýta breidd sína nokkuð vel á þessum upphafsmínútum, þar sem að einir 12 leikmenn voru komnir á blað í stigaskorun eftir fyrstu 10 mínúturnar.

KR opnar annan leikhlutann á 3-13 áhlaupi. Heimamenn eru nokkuð snöggir að töðvaþá blæðingu, en munurinn er 5 stig þegar 5 mínútur eru eftir af hálfleiknum, 30-35. Haukar ná að jafna, 42-42, en missa gestina aftur frá sér á lokamínútunum. Þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn 6 stig, 42-46.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Daniel Mortensen með 11 stig á meðan að Brian Fitzpatrick var kominn með 13 stig fyrir KR.

Í uphhafi seinni hálfleiksins kviknaði heldur betur á leikmanni Hauka Norbertas Giga og ná þeir nokkuð hratt að vinna niður forskot KR. Eru svo yfir alveg fram á lokaandartök þriðja fjórðungsins, en með glæsilegum villuþrist nær nýr leikmaður KR að koma þeim aftur í forystu fyrir lokaleikhlutann, 69-71.

Leikurinn er svo í járnum vel inn í fjórða leikhlutann, þar sem að allt er jafnt þegar 5 mínútur eru til leiksloka, 82-82. Undir lok venjulegs leiktíma nær KR í nokkur skipti að fara þremur stigum á undan en fyrir Hauka svarar Daniel Mortensen í hvert einasta skipti. KR fær í lokasókn þess fjórða tvö góð tækifæri til þess að vinna leikinn, en ekki vill boltinn niður, 94-94 og því þarf að framlengja.

Sóknarlega gengur báðum liðum frekar illa í framlengingunni, en varla má sjá milli liðanna fram á lokasekúndurnar. Þegar rúmlega hálf mínúta er eftir er staðan jöfn, 101-101. Í lokasókn Hauka nær Dee Davis að leggja boltann ofaní og tryggir Haukum sigur að lokum í þessum mikla spennuleik, 103-101.

Atkvæðamestir

Norbertas Giga var bestur í liði Hauka í kvöld með 25 stig og 13 fráköst. Honum næstur var Daniel Mortensen með 20 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar.

Fyrir KR var Brian Fitzpatrick með 19 stig, 12 fráköst, 6 stoðsendingar og Justas Tamulis bætti við 26 stigum og 6 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi fimmtudag 2. febrúar. Þá fá KR-ingar lið Þórs í heimsókn og Haukar mæta Íslandsmeisturum Vals í Origo Höllinni.

Tölfræði leiks