Valur lagði Keflavík í 18. umferð Subway deildar kvenna í kvöld, 71-64. Eftir leikinn sem áður er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 32 stig á meðan að Valur er nú aðeins einum leik fyrir aftan þær í 2. sætinu, með 30 stig.

Fyrir leik

Fyrir sem eftir leikinn er Keflavík efsta lið deildarinnar. Valur er þó heitasta lið deildarinnar, en þær höfðu fyrir leik kvöldsins unnið síðustu átta leiki sína og voru komnar upp í annað sætið.

Liðin höfðu í tvígang áður mæst í deildinni á tímabilinu. Þann 12. október hafði Keflavík þriggja stiga sigur í Origo Höllinni, 75-78, en Valur hafði kvittað fyrir það tap með því að leggja Keflavík með 9 stigum í Blue Höllinni þann 4. desember, 75-84, en það var eina tap Keflavíkur í deildinni á tímabilinu.

Gangur leiks

Heimakonur í Val leiða allan fyrsta fjórðunginn. Þó ekki með miklu, en þegar leikhlutinn er á enda er munurinn 3 stig, 19-16. Eftir ágætisbyrjun í öðrum leikhlutanum missa gestirnir úr Keflavík heimakonur heldur langt frá sér. Mest leiðir Valur með 12 stigum undir lok fyrri hálfleiksins, 38-26, en þegar liðin halda til búningsherbergja er forysta þeirra 10 stig, 41-31.

Stigahæst fyrir Val í fyrri hálfleiknum var Jiana Johnson með 13 stig á meðan að Daniela Wallen var komin með 8 stig fyrir Keflavík.

Seinni hálfleikinn opna heimakonur á sterku 14-5 áhlaupi og leiða því með 19 stigum þegar tæpar 6 mínútur eru eftir af þeim þriðja, 55-36. Því forskoti ná þær að hanga út þriðja leikhlutann, en fyrir þann fjórða er 18 stiga munur á liðunum, 67-49. Með mikilli orku nær Keflavík að skera niður forystu heimakvenna niður í 6 stig í upphafi lokaleikhlutans og er staðan 72-66 þegar rúmar 4 mínútur eru eftir af leiknum. Keflavík nær svo að halda pressunni á heimakonum allt fram á lokamínútuna, þrátt fyrir að komast aldrei körfu eða nær þeim. Niðurstaðan að lokum 7 stiga sigur Vals, 71-64.

Atkvæðamestar

Best í liði Vals í kvöld var Kiana Johnson með 20 stig, 8 fráköst, 8 stoðsendingar og 7 stolna bolta. Henni næst var Hildur Björg Kjartansdóttir með 15 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir Keflavík var Daniela Wallen atkvæðamest með 16 stig, 21 frákast og Anna Ingunn Svansdóttir bætti við 18 stigum.

Hvað svo?

Síðasti leikur beggja liða fyrir landsleikjahlé er næsta miðvikudag 1. febrúar. Þá fær Keflavík botnlið ÍR í heimsókn og Valur heimsækir Grindavík.

Tölfræði leiks