Bikarmeistarar Hauka hafa fengið góðan liðsstyrk fyrir komandi átök í Subway deildinni. Samkvæmt heimildum Körfunnar hefur hin reynslumikla Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skrifað undir hjá félaginu og mun ljúka tímabilinu í Ólafssal.
Sigrún Sjöfn kemur til liðsins frá Fjölni, en áður hefur hún einnig leikið með Skallagrím, KR, Hamri og Grindavík í efstu deild á Íslandi, sem og sem atvinnumaður í Frakklandi og í Svíþjóð. Þá hefur hún einnig leikið 57 leiki fyrir íslenska landsliðið.
Sigrún yfirgaf Fjölni á dögunum en hún var einnig aðstoðarþjálfari liðsins. Ástæða brotthvarfsins var ólík sýn hennar og Kristjönu Jónsdóttur þjálfara liðsins.