Landsliðsmaðurinn og leikmaður Hamars í fyrstu deildinni Ragnar Nathanaelsson sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag á samfélagsmiðlinum Twitter þess efnis að hann myndi taka þriggja stiga skot í næsta leik liðsins, sem er komandi föstudag 27. janúar gen Ármanni í Hveragerði.

Á nokkuð löngum 16 ára, 355 leikja feril hefur Ragnar aldrei áður tekið þriggja stiga skot. Árið 2014 tók hann þó tvö slík (klikkaði úr báðum) í Stjörnuleik deildarinnar, en þar var ekki um eiginlegan keppnisleik að ræða.

Eftir nokkuð mörg tímabil í efstu deild og í atvinnumennsku erlendis færði Ragnar sig fyrir yfirstandandi tímabil til uppeldisfélags síns Hamars í Hveragerði. Þrátt fyrir þristaleysið hefur Ragnari og liðinu gengið ágætlega, hann með 15 stig, 17 fráköst að meðaltali í leik og liðið í öðru sæti deildarinnar.