Íslandsmeistarar Njarðvíkur lögðu nýliða ÍR í kvöld í 18. umferð Subway deildar kvenna, 61-77. Njarðvík styrkti stöðu sína í 4. sæti deildarinnar með sigrinum, en þar eru þær með 20 stig, fjórum stigum á undan Grindavík í 5. sætinu. ÍR er hinsvegar í 8. sæti deildarinnar, enn með aðeins einn sigur úr fyrstu 18 umferðunum.
Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað, þar sem að nýliðar ÍR gerðu vel að hanga í meisturunum úr Njarðvík á upphafsmínútunum, en þegar sá fyrsti var á enda var munurinn þó 7 stig, 19-26. Heimakonur í ÍR gera svo áfram vel að halda leiknum jöfnum út fyrri hálfleikinn. Eftir fyrstu 20 mínúturnar munaði bara 8 stigum á liðunum, 31-39.
Í upphafi seinni hálfleiksins taka Njarðvíkurkonur öll völd á vellinum. Vinna þriðja leikhlutann með 18 stigum, 8-26 og eru því nánast búnar að gera útum leikinn í lok þess þriðja, 39-65. Heimakonur í ÍR ná svo aldrei að gera þetta að leik í lokaleikhlutanum. Njarðvík vinnur að lokum mjög svo örugglega, með 16 stigum, 61-77.
Atkvæðamest fyrir ÍR í leiknum var Greeta Uprus með 25 stig og 9 fráköst. Fyrir Njarðvík var það Aliyah Collier sem dró vagninn með 16 stigum, 6 fráköstum og 5 stoðsendingum.
Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 1. febrúar. Þá heimsækir ÍR topplið Keflavíkur og Njarðvík fær Breiðablik í heimsókn.