RUSL, aumingjar, trúðar!

Þetta eru aðeins þrjú orð af þeim sem sumir körfuknattleiksáhugamenn hafa viðhaft um dómara síðustu vikur og mánuði á Subway-spjallinu það sem af er þessu tímabili. Subway-spjallið er vettvangur áhugamanna um Subway-deildirnar og í raun bara körfuboltann almennt á Íslandi. Nauðsynlegur vettvangur sem þarf að umgangast af virðingu eins og annað sem fram fer á netinu.

Dómgæsla í Subway-deildunum hefur verið mikið á milli tannanna á fólki í vetur. Stór og niðrandi orð verið látin falla, en í þessari grein ætla ég að freistast til þess að fá ákveðinn hluta áhugamanna um að breyta hugarfari sínu þegar kemur að umræðu og umfjöllun um dómara. Mér finnst einfaldlega nóg komið af persónulegu skítkasti út í dómarahópinn. Þeir eiga erfitt með að bera hönd yfir höfuð sér og því verður einhver annar að gera það.

Stór hluti spjallþráða Subway-spjallsins tengist dómgæslu í leikjum. Eðlilega hafa körfuboltaunnendur skoðun á dómgæslunni eins og öðru. En það er vandasamt og ekkert öllum gefið að tjá sig málefnalega án þess að þurfa alltaf að viðhafa persónulegt skítkast. Að þessu sögðu er rétt að taka það fram að óvísindalegar rannsóknir mínar á þessu spjalli benda til þess að mikið til sömu einstaklingarnir eigi við þessi vandamál að stríða að geta ekki tjáð sig án þess að setja fram særandi og níðandi ummæli um persónur dómaranna. En það þarf ekkert marga einstaklinga til að ata íþróttina okkar auri til að það sjáist og tekið sé eftir. Þetta þarf að uppræta. Við ættum kannski að huga að þessum einstaklingum og hjálpa þeim, benda þeim á aðra möguleika til að koma sínum skoðunum á framfæri.

En sömu rannsóknir mínar benda líka til þess að inn á milli séu málefnalegar umræður um dómgæslu án þess að þær fari út í þetta persónulega skítkast. Því ber að fagna og þannig á það að vera. Það var t.d. gaman að sjá tölfræðisamantekt frá spjallverja um villur á milli liða, hversu margar liðin fá og hversu margar andstæðingar þeirra fá. Þetta fannst mér upplýsandi sem leikfræðilegt efni og sýndi svo ekki er um villst að leikstíll liða er mismunandi. Einhverjir sögðu að þessi samantekt sýndi það hvernig hallaði á mitt gamla ástkæra uppeldisfélag Tindastól, en í mínum bókum sýndi þetta hvernig Tindastólsliðið spilar heilt yfir. Samræmið sem kom þar fram varðandi leik Tindastóls sýndi mér ekki að dómarar væru með samantekin ráð um að dæma fleiri villur á mína menn heldur meira um það hvernig Tindastóll spilar.

Tökum opinber dæmi beint af Subway-spjallinu:

„Þetta er 3 leikurinn í vetur hjá þessum XX (nafn tekið út af greinarhöfundi) og hann er búinn að drulla uppá bak í þeim öllum..alger þrotamaður og er engann veginn að ráða við það að vera yfirdómari“

„- já þá kemur þetta rusl og eyðileggur leikinn!“

„Af hverju eru dómarar á íslandi heilt yfir svona mikið RUSL ????“

svona svipað eins og valsborguðu trúðarnir á flautunni“

Þetta er bara örfá dæmi. Hver er tilgangurinn með svona ummælum? Hvað halda viðkomandi að þeir séu að leggja til málanna? Eitthvað málefnalegt eða vitrænt? Eitthvað uppbyggjandi? Nei, þetta er persónuníð, þarna er eini tilgangurinn að niðurlægja og særa. Jafnvel upphefja sjálfan sig. Fyrir unga og óharðnaða dómara getur þetta verið mjög erfitt, rétt eins og ef ungir leikmenn fengju yfir sig þetta rugl.

Dómarahópurinn á tímamótum

Ég held að allir viti það að dómarahópurinn okkar er að taka miklum breytingum. Það hafa orðið kynslóðaskipti á ótrúlega skömmum tíma. Við höfum misst fjöldann allan af reyndum dómurum sem dæmdu lengi. Í staðinn hafa stigið í þeirra spor ungir og óreyndir dómarar sem eru margir hverjir að feta sín fyrstu skref í efstu deildum. Ég hef séð marga mjög efnilega dómara á parketinu í vetur og síðustu 1-2 tímabilum. En þeir koma ekki til með að stíga fullskapaðir til leiks í hvelli, ekki frekar en ungir leikmenn.

Það er nefnilega ekki þannig að ungir og óreyndir leikmenn verði góðir án þess að öðlast reynslu og færni og vera gefinn tími til þess. Nei allir ungir leikmenn fá þann tíma sem þeir þurfa. Það sama gildir um dómara, eða á að gilda um dómara. Stuðningsmenn hafa gott þol fyrir ungum leikmönnum sinna liða, fyrirgefa mistök hér og mistök þar, eru jákvæðir og hvetja þá áfram. Hvað sem hver segir, þá er það þetta nákvæmlega sama viðhorf sem þarf þegar við erum að byggja upp dómara. Dómarar eru bara fólk eins og við, þeir eru mannlegir og þurfa sömu hvatningu og stuðning til að bæta sig og ná árangri rétt eins og leikmenn.

Þegar ég var sjálfur að spila og síðar að þjálfa, fengu dómarar yfir sig fúkyrðaflaum úr stúkunni, yfirleitt alltaf frá sömu einstaklingunum. Þá gátu dómarar tekið það á kassann, eða á treyjuna eins og þeir sögðu sjálfir og hent henni í þvottavélina þegar heim var komið. Þá var það bara grafið og gleymt. Í dag eru aðrir tímar, dómarar fá vissulega áfram sig fúkyrði úr stúkunni, en nú dugar ekki að setja það með treyjunni í þvottavélina. Þetta heldur áfram á netinu þar sem hægt er að stigmagna ummæli með svörum og „lækum.“

Það hefur mjög margt breyst í leiknum okkar fagra síðan fyrir 30 árum, leikurinn orðinn hraðari og áhorfendavænni, menn taka á leikrænum tilburðum sem gerir leikinn betri og fallegri sem leiðir til þess að leikurinn er leikinn af þeirri virðingu sem hann á skilið. Í þá daga höguðu menn sér eins og bjánar þegar þeir voru ósáttir við dóma – ég var engin undantekning þar, dómarar voru jafnvel umkringdir af ósáttum leikmönnum sem lýstu óánægju sinni með ýmsum hætti sem blessunarlega hefur tekist að uppræta í dag. Og þá voru dómararnir bara tveir.

Fyrst við erum að tala um hvernig þetta var, þá var umhverfið þannig að sumir forsvarsmenn félaga litu á dómara hreinlega sem afætur og óvini. Dómarar „dirfðust“ að innheimta aksturs- og uppihaldskostnað sem voru mun hærri fjárhæðir en launin þeirra voru. Þá tíðkaðist það líka að dómarar fengu gert upp á leikstað og það kom fyrir að gjaldkerar félaga neituðu að greiða þeim fyrir vinnu sína ef þeir voru ósáttir við þeirra frammistöðu. En sem betur fer hafa málin þróast í þá átt að allir vita og skilja að dómarar eru jafn stór hluti af leiknum og leikmenn og þjálfarar eða bara boltinn sem notaður er ef út í það er farið. Hluti af stóra púslinu.

Dómarar hafa alla tíð verið á lúsarlaunum og núna ber meira að segja á þeirri umræðu meðal forráðamanna félaga innan KKÍ að þetta starf þurfi að vera betur borgað til að laða að fleiri dómara og þétta þeirra raðir. Það er enginn dómari í þessu út af laununum get ég sagt ykkur. Og af hverju ekki að setja meira fjármagn í laun fyrir dómara rétt eins og að finna fjármagn fyrir þriðja eða fjórða útlendinginn? Þeir þurfa að þróast eins og annað í leiknum og við í hreyfingunni þurfum að sjá stóru myndina. Það þýðir ekki bara að leggja í kostnað við leikmenn, betri umgjörð leikja, beinar netútsendingar og allt sem menn hafa gert svo frábærlega ef þróun dómara situr eftir.

Ábyrgð fjölmiðla

Umfjöllun um körfubolta hefur stóraukist og á mikinn þátt í þeim mikla uppgangi og áhuga sem kominn er á íþróttinni. Íþróttin fær nú gott pláss í fjölmiðlum, mikið er um beinar útsendingar og úrslitakeppnin er náttúrlega frábær söluvara ein og sér. En fjölmiðlar bera að sama skapi mikla ábyrgð. Þeir leggja línurnar í umræðunni sem á eftir fer. Fólk hlustar á lýsendur og leikgreinendur í leikjum, tekur því trúanlegt sem þar er sagt og ef lýsandi segir að dómararnir séu búnir að missa tökin á leiknum, þá trúa því flestir. Um daginn heyrði ég lýsanda akkúrat segja það að dómararnir væru að missa tökin á leiknum af því að leikmenn voru farnir að berja hvern annan. En lýsandanum datt ekki í hug að beina spjótum sínum fyrst að leikmönnunum sem frömdu þessi brot. Þetta kom því þannig út að það væri dómurunum að kenna að leikmennirnir væru að slást. Þarna þurfa fjölmiðlar aðeins að vanda sig. Inn á milli eigum við frábæra lýsendur sem þekkja leikinn og það sem fram fer þar og ná að koma því sem fyrir augu ber á mannamál sem allir skilja. En bara svona athugasemdir beina athyglinni í kolranga átt. Einn lýsandinn sagði líka um daginn að það væri enginn hagnaðarregla í körfubolta. Hvet viðkomandi til að lesa sér betur til. Ótal hlaðvörp hafa litið dagsins ljós og eru sum þeirra æði vinsæl. Þar bera stjórnendur líka ábyrgð, þeir þurfa að standa málefnalega að sinni gagnrýni á leikmenn, þjálfara og dómara, ekki bara nota stór lýsingarorð sem fallið gætu vel í kramið hjá netverjum.

Það má ekkert lengur!!

Eitt atriði verð ég að minnast á en það er sú fullyrðing að það sé búið að taka allt „passion“ úr leiknum, leikmenn megi ekki sýna tilfinningar eða skipta skapi án þess að fá tæknivillur. Og að sjálfsögðu er dómurunum kennt um þetta og þeir fá á sig ómaklega gagnrýni eins og þetta sé eitthvað sem íslenskir dómarar hafi bara ákveðið á einum góðum haustfundi. Það er FIBA sem leggur línurnar fyrir hvert tímabil. Þau senda út áherslubreytingar sem landssambönd og dómarar þurfa að fara eftir. Að taka á svona hegðun sem hér um ræðir er því ekki einkamál íslenskra dómara, heldur gerist þetta út um allan heim skv. fyrirmælum FIBA – og er líka áherslumál í NBA. Ef íslenskir dómarar færu ekki eftir þessum línum, væru þeir ekki að vinna vinnuna sína rétt. Núna geta áhugasamir beint reiði sinni að FIBA og þeir sem ekki vissu þetta, vita það þá alla vega núna.

Aðrar íþróttagreinar hafa til langs tíma litið upp til körfuboltans þegar kemur að samskiptum dómara, leikmanna og þjálfara og virðing fyrir dómurum inni á körfuboltavellinum hefur verið langtum meiri en hjá flestum öðrum kontakt-boltaíþróttum. Þetta kemur til vegna skýrra reglna og lína sem lagðar eru og framfylgni þeirra. Þegar reglur breytast líður smá tími þangað til þær verða ómeðvitaður hluti af leiknum og enginn tekur sérstaklega eftir því.

Ég hef spjallað við marga dómara í gegn um tíðina. Ég hef lagt mig fram um að kynna mér þeirra vinnu á bak við tjöldin. Ég veit að þeir brenna fyrir þessu fagi, annars væru þeir ekki að standa í þessu. Þeir eru fagmenn, eru mjög gagnrýnir á eigin frammistöðu, þeir skoða alla leiki sem þeir dæma, ræða um atvik sem koma upp og læra af reynslunni. Ég get alveg lofað ykkur því að á heimleið eftir leik á Sauðárkróki ræða dómarar ekki um verðbólgu, háa vexti eða tásumyndir frá Tene. Kannski pínulítið, en þeir spjalla saman um leikinn, hvað þeir hefðu átt að gera betur, hvernig þeir sáu einstaka atvik með mismunandi augum og þar fram eftir götunum. Þeir hafa aðgang að öllum þeim leikjum sem þeir dæma og úr leikjunum eru tekin dæmi um góða dómgæslu og slæma, allt til þess að dómarar verði betri í því sem þeir eru að gera. Og þegar kynslóðaskipti eiga sér stað í dómarastéttinni eins og núna, verða allir að sýna því tillitssemi og leggja sitt af mörkum til að láta þau ganga upp.

Þraukið kæru dómarar

Ég vona innilega að við getum tekið gagnrýni á dómara á hærra plan. Staðan er einfaldlega ekki góð, það vantar dómara og þeir sem gefa sig í verkefnið þurfa ekki bara að sitja undir gagnrýni – sem ég veit að þeim finnst allt í lagi svo framarlega sem hún er málefnaleg, heldur þurfa þeir og fjölskyldur þeirra að lesa uppnefni og níð um sig á netinu. Ef okkur finnst vanta gæði í dómgæsluna á Íslandi er það vegna þess að við erum að þjálfa upp nýja kynslóð dómara. Ég veit að margir dómarar eru að bugast vegna álags, vegna óvæginnar persónulegrar umræðu og vegna þeirra launa sem eru í boði. Við þá dómara vil ég segja þetta; mikill meirihluti körfuknattleiksáhugafólks veit að ykkar hlutverk er jafn mikilvægt og hlutverk leikmanna, þjálfara og annarra sem koma að körfuknattleiknum á Íslandi. Þraukið á meðan við sem tilheyrum þessum hópi reynum að framkalla breytingar á umræðunni og umgjörð dómara.

Ég hvet að lokum alla þá sem vilja veg körfuboltans sem mestan til að leggja það á sig að fordæma það skítkast og ómenningu sem í gangi er í ummælum og gagnrýni á dómara. Er ég að fara fram á að þeir verði yfir gagnrýni hafnir? Nei alls ekki, þeir eiga að fá sinn skerf af gagnrýni eins og leikmenn og þjálfarar, en við viljum hafa hana málefnalega, því aðeins þannig færumst við fram á við og náum að halda íþróttinni okkar í þeim metum sem hún er og á skilið að vera í.

/ Karl Jónsson