ÍR lagði Fjölni í kvöld í 16. umferð Subway deildar kvenna, 62-55. Sigurinn var sá fyrsti sem nýliðar ÍR vinna í vetur, en þær eru samt sem áður í neðsta sæti deildarinnar, nú með tvö stig. Fjölnir er eftir leikinn í sjötta sætinu með 8 stig.

Gestirnir úr Grafarvogi byrjuðu leik kvöldsins betur. Leiddu með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta, 17-21. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Fjölnir svo enn að bæta við forskot sitt og fara þær með tólf stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 25-37.

Heimakonur í ÍR mæta svo með miklum krafti út í seinni hálfleikinn. Ná að vinna niður forskot Fjölnis í þeim þriðja og er staðan jöfn fyrir lokaleikhlutann, 42-42. Í þeim fjórða ná þær að halda áfram þar sem frá var horfið og sigra leikinn að lokum með 7 stigum, 62-55.

Atkvæðamest heimakvenna í leiknum var Greeta Uprus með 26 stig og 4 fráköst. Henni næst var Margrét Blöndal með 11 stig og 9 fráköst.

Fyrir Fjölni var það Simone Sill sem dró vagninn með 20 stigum og 18 fráköstum.

Bææði leika liðin næst komandi miðvikudag 25. janúar, en þá fær Fjölnir Íslandsmeistara Njarðvíkur í heimsókn og ÍR heimsækir Val.

Tölfræði leiks