KR lagði Stjörnuna í Laugardalshöllinni í morgun í úrslitaleik VÍS bikarkeppni 9. flokks drengja, 95-31.

Fyrir leik

Stjarnan er sem stendur í efsta sæti deildarkeppni 9. flokks drengja án taps eftir fyrstu níu leiki sína, KR er þó ekki langt undan í öðru sætinu með sjö sigra og tvö töp.

Í lið Stjörnunnar í dag vantaði þó einhverja leikmenn, þar sem að flokkurinn er einnig að taka þátt í Evrópumóti félagsliða úti í Litháen þessa helgina.

Gangur leiks

KR var með öll völd á vellinum í upphafi leiks. Ná að halda Stjörnunni stigalausri allan fyrsta leikhlutann og setja sjálfir 23 stig, 23-0. KR nær áfram að halda Stjörnunni stigalausum inn í annan leikhlutann, en í stöðunni 34-0 komast Stjörnudrengir á línuna og skora sín fyrstu stig í leiknum. Í framhaldinu gengur þeim svo betur að koma stigum á töfluna, en KR er þó með nánast unninn leik í höndunum þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 49-13.

Atkvæðamestur fyrir KR í fyrri hálfleiknum var Lárus Grétar Ólafsson með 8 stig og 11 fráköst. Fyrir Stjörnuna var Daniel Geir Snorrason kominn með 11 stig.

Miklu meira jafnræði er á með liðunum í upphafi seinni hálfleiksins. KR er ennþá sterkari aðilinn, en Stjarnan virðist að einhverju leyti vera að ná vopnum sínum. Gefa ekki eins mörg sóknarfráköst, eru duglegri að koma sér á gjafalínuna og uppskera 11 stiga leikhluta. Staðan fyrir þann fjórða þó nokkuð snúin fyrir þá, 44 stiga munur, 68-24. Eftirleikurinn virtist nokkuð einfaldur fyrir KR. Klára fjórða leikhlutann með ágætis krafti og sigla að lokum öruggum sigur í höfn.

Atkvæðamestir

Lykilleikmaður KR í leiknum var Lárus Grétar Ólafsson með 15 stig, 19 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolna bolta og varið skot. Honum næstur var Tómas Dagsson með 16 stig og 14 fráköst.

Fyrir Stjörnuna var Daniel Geir Snorrason atkvæðamestur með 17 stig og 5 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn