Keflavík lagði granna sína úr Njarðvík í Subway deild kvenna í kvöld, 78-67.

Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 28 stig á meðan að Njarðvík er í 4. sætinu með 14 stig.

Bæði lið tefldu fram nýjum leikmönnum í leik kvöldsins, þar sem hin sænska Emma Adriana Karamovic náði að skora 6 stig, taka 7 fráköst og gefa 4 stoðsendingar í frumraun sinni fyrir Íslandsmeistara Njarðvíkur á meðan að Emelía Ósk Gunnarsdóttir hafði öllu hægar um sig á tæpum 2 mínútum spiluðum í fyrsta leik sínum fyrir Keflavík síðan 2020.

Það benti fátt til þess að heimakonur í Keflavík myndu fara með sigur af hólmi í upphafi leiks í kvöld. Njarðvík náði að læsa leiknum ágætlega varnarlega á upphafsmínútunum og leiddu með 6 stigum eftir fyrsta leikhluta, 10-16. Undir lok hálfleiksins ná Íslandsmeistararnir svo aðeins að bæta í og eru með 12 stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 24-36.

Það var svo eins og annað Keflavíkurlið hafi mætt til leiks í seinni hálfleiknum. Sóknarlega ná þær að komast vel af stað í fyrsta skipti í leiknum og eru ekki lengi að snúa taflinu sér í vil. Vinna þann þriðja með 18 stigum og eru því 6 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann. Í þeim fjórða gera þær svo nóg til þess að sigla nokkuð þægilegum 11 stiga sigur í höfn, 78-67, þar sem að Njarðvík náði aldrei að gera leikinn spennandi á lokamínútunum.

Fyrir Keflavík var Daniela Wallen best í kvöld með 26 stig, 13 fráköst, 4 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Þá bætti Karina Denislavova við 16 stigum og 9 stoðsendingum.

Fyrir Íslandsmeistarana var Aliyah Collier atkvæðamest með 20 stig, 20 fráköst og 6 stoðsendingar.

Næst á Keflavík leik næst gegn Stjörnunni þann 10. janúar í undanúrslitum VÍS bikarkeppninnar á meðan að Njarðvík tekur næst á móti Grindavík þann 18. janúar í Subway deildinni.

Tölfræði leiks