Keflavík og Stjarnan áttust við í undanúrslitum VÍS bikars kvenna í gærkvöldi. Bæði lið eru á toppi sinna deilda, Keflavík í Subway deildinni, en Stjarnan í 1. deild kvenna, og höfðu liðin tapað samtals einum leik allt tímabilið. Athygli vakti að meðalaldur byrjunarliðs Stjörnunnar var 18,4 ár, en þar af var hin 25 ára gamla Riley Popplewell.

Keflavíkurkonur byrjuðu leikinn af miklum krafti, pressuðu Garðbæinga mikið og þvinguðu þær í mistök. Fljótlega var forysta Keflavíkur komin yfir 10 stig, og höfðu þær níu stiga forskot eftir fyrsta fjórðung, 18-27.

Í öðrum leikhluta spóluðu Keflvíkingar fram úr hinu unga Stjörnuliði. Topplið Subwaydeildarinnar náði hverju hraðaupphlaupinu á fætur öðru, og þó að Stjörnukonur hafi reynt sitt besta að halda í við Keflavík héldu Keflavík einfaldlega engin bönd. Daniela Wallen var sérstaklega góð, og lauk leik í fyrri hálfleik einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu, með 18 stig, 14 fráköst og 9 stoðsendingar. Keflavík hafði 24 stiga forskot í hálfleik, 36-60.

Eftirleikurinn varð auðveldur fyrir Keflavík í seinni hálfleik, og þó að Stjarnan hafi sýnt hetjulega frammistöðu á mjög ungu liði áttu þær aldrei möguleika á að saxa á forskot Keflavíkur. Keflavík vann að lokum 27 stiga sigur, 73-100, og mæta því Haukum í úrslitum bikarsins á laugardag.

Stigahæst Keflvíkinga var Daniela Wallen með 25 stig, en hún náði þrefaldri tvennu með 19 fráköst og 12 stoðsendingar að auki. Hjá Stjörnunni var Diljá Ögn Lárusdóttir með 23 stig.