Keflavík lagði Grindavík í kvöld í 14. umferð Subway deildar karla, 93-104. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 22 stig á meðan að Grindavík er í 7. sætinu með 14 stig.

Fyrir leik

Í fyrri umferð Subway deildarinnar hafði Keflavík nokkuð öruggan 9 stiga sigur á Grindavík þann 20. október í Blue Höllinni, 96-87. Í þeim leik var Eric Ayala atkvæðamestur fyrir Keflavík með 28 stig, en fyrir Grindavík var Jón Axel Guðmundsson bestur með 13 stig, 5 fráköst og 9 stoðsendingar.

Gangur leiks

Gestirnir úr Keflavík voru skrefinu á undan á upphafsmínútunum. Heimamenn voru þó snöggir að ranka við sér og er leikurinn nokkuð jafn út fyrsta fjórðung, þar sem Keflavík er þremur stigum yfir, 17-20. Í öðrum leikhlutanum var komið að Grindavík að vera á undan. Leikurinn þó enn nokkuð jafn, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálgleik leiðir Grindavík með 4 stigum, 49-45.

Stigahæstur fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Eric Ayala með 13 stig á meðan að Ólafur Ólafsson var kominn með 16 stig fyrir heimamenn.

Með herkjum heldur Grindavík í forystuna lungann úr þriðja leikhlutanum. Með nokkrum þristum frá Magnúsi Engil Valgeirssyni eru þeir skrefinu á undan fram á lokamínútur fjórðungsins. Þá nær Valur Orri Valsson að setja einn og svo annan þrist þegar leikhlutinn er að klárast til að setja Keflavík aftur í forystu fyrir þann fjórða, 75-77.

Keflvíkingar halda áhlaupi sínu áfram í byrjun þess fjórða og ná sinni mestu forystu til þessa í leiknum þegar fjórðungurinn er tæplega hálfnaður, 83-91. Nokkuð var farið að bera á villuvandræðum hjá Grindavík á þessum tímapunkti, þar sem að Damier Pitts var kominn með 4 villur og restin af byrjunarliði þeirra var með 3 villur. Hjá Keflavík var staðan svipuð, en ögn skárri, Igor Maric með 4 villur og Eric Ayala og Dominykas Milka með 3 villur. Ekkert af þessu kemur þó að sök á lokamínútunum. Keflvíkingar gera vel að halda Grindvíkingum í hæfilegri fjarlægð og vinna leikinn nokkuð örugglega að lokum, 93-104.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestir fyrir Keflavík í leiknum voru Eric Ayala með 27 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson með 16 stig og 9 stoðsendingar.

Fyrir Grindavík var það Gaios Skordilis sem dró vagninn með 24 stigum. Honum næstur var Ólafur Ólafsson með 21 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þar næsta föstudag 3. nóvember, en þá heimsækir Grindavík lið ÍR og Keflavík fær Breiðablik í heimsókn.

Tölfræði leiks