Haukar lögðu Grindavík í Ólafssal í kvöld í Subway deild kvenna, 77-67. Eftir leikinn eru Haukar í 2. sæti deildarinnar með 28 stig líkt og Valur, sem þó eiga leik til góða í kvöld gegn Keflavík. Grindavík er sem áður í 5. sætinu með 16 stig, nú fjórum stigum fyrir aftan Njarðvík í 4. sætinu.
Heimakonur í Haukum byrjuðu leik kvöldsins af miklum krafti og leiddu með 10 stigum eftir fyrsta leikhluta, 23-13. Undir lok fyrri hálfleiksins bæta þær svo enn við forystu sína og eru með 13 stiga forskot þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 42-29.
Grindavík gerir svo vel að halda í við heimakonur í upphafi seinni hálfleiksins, en munurinn er þó enn 14 stig fyrir lokaleikhlutann, 61-47. Í honum gera heimakonur svo vel að halda í fenginn hlut. Næst kemst Grindavík 7 stigum frá þeim um miðjan fjórða leikhlutann, en nær komast þær ekki. Niðurstaðan að lokum nokkuð röuggur sigur Hauka, 77-67.
Atkvæðamest fyrir Hauka í leiknum var Eva Margrét Kristjánsdóttir með 15 stig og 8 fráköst. Þá bætti Keira Robinson við 15 stigum og 7 stoðsendingum.
Fyrir Grindavík var Danielle Rodriguez best með 23 stig og 7 stoðsendingar. Henni næst var Amanda Akalu með 13 stig og 7 fráköst.
Síðasti leikur beggja liða fyrir landsleikjahlé er komandi miðvikudag 1. febrúar, en þá heimsækja Haukar lið Fjölnis í Dalhús og Grindavík fær Val í heimsókn.