Höttur birti mynd frá æfingu liðsins í gær þar sem fylgjendur eru hvattir til þess að sjá hver munurinn er á liðinu. Sé vel að gáð á myndinni sést að á henni er mögulegur nýr liðsmaður liðsins að nafni Bryan Alberts.

Bryan er 28 ára bandarískur/hollenskur bakvörður sem upphaflega kom til Hattar og lék með þeim 12 leiki síðast þegar þeir voru nýliðar í Subway deildinni tímabilið 2020-21. Þá skilaði hann 16 stigum, 3 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik. Þá skaut hann boltanum einkar vel fyrir utan þriggja stiga línuna á tímabilinu, með 43% nýtingu á tæpum sex tilraunum að meðaltali í leik.

Samkvæmt heimildum Körfunnar mun Alberts vera við það að ganga á nýjan leik til liðs við Hött, en vonir standa til þess að hann verði kominn með leikheimild fyrir leik morgundagsins, sem er gegn Þór heima á Egilsstöðum.