Í fyrri pistlum mínum hér á Körfunni hef ég mikið rætt um skilvirkni liða í bæði vörn og sókn. Það er nokkuð einfalt að meta skilvirkni liða eða að minnsta kosti mun einfaldara en að meta skilvirkni leikmanna. Fyrir einstaka leikmenn eru til skilvirknikennitölur eins og Efficiency (eða „framlag“ hjá KKÍ), Game Score, Player Impact Estimate og Performance Index Rating sem eru allar gallaðar á sinn hátt. Í raun eru allir tölfræðivísar sem meta eiga einstaka leikmenn gallaðir og því mikilvægt að taka mið af samhengi hlutanna þegar lagt er í slíka vegferð.

Á Grid-síðunni minni er hægt að sjá mat á skilvirkni leikmanna samkvæmt aðferð sem ég hef útfært með tveimur þekktum en ólíkum tölfræðivísum. Þeir eru PER og Usg%. PER eða Player Efficiency Rating er skilvirknistuðull sem John nokkur Hollinger setti saman en samkvæmt þeirri hugmyndafræði er meðalleikmaður með 15 í PER og elítuleikmaður með um 30. Hann tekur einnig tillit til mínútufjölda og því gæti skilvirkur leikmaður sem spilar 5 mínútur í leik verið með sama PER og lykilleikmaður í liðinu. Usage rate eða Usg% er áætlað hlutfall atlaga (plays) sem enda hjá umræddum leikmanni. Munurinn á atlögum og sóknum er að atlaga endar þrátt fyrir að sóknarfrákasti hafi verið náð, en með sóknarfrákasti heldur hins vegar sókn áfram. Atlögur enda því með annað hvort skoti utan af velli, vítaskoti eða töpuðum bolta. Usg% ætti því að gefa til kynna hversu mikið af sóknarleik liðsins endar hjá viðkomandi leikmanni. Þetta segir hins vegar ekkert um hversu lengi boltinn stoppar hjá þessum leikmanni eða hversu mikið hann dripplar honum.

PER er ekki fullkominn skilvirknivísir frekar en aðrir og eins og bent er á hér að ofan gæti hann gefið leikmanni sem spilar fáar mínútur of hátt gildi auk þess sem færð hafa verið rök fyrir því að magnskyttum (e. volume shooters) sé ýtt ofar en þörf krefur. Þar að auki gleymast góðir varnarmenn í PER útreikningum, en það er því miður raunin með flesta þessa einstaklingstölfræðivísa. PER er samt sem áður einn skásti tölfræðivísirinn sem hægt er að reikna út frá „box-skorinu“ og því erum við hér.

Ef við berum þessa tvo tölfræðivísa saman getum við fengið nokkuð heilsteypta mynd af skilvirkni leikmanna með tilliti til þátttöku þeirra í sóknarleik liðsins. Þannig sjáum við hvaða skilvirku leikmenn eru mögulega vannýttir og þá einnig hvaða óskilvirku leikmenn eru mögulega að nýta of margar af atlögum liðsins.

Aðferðin sýnir einfalt punktarit með Usg% á x-ás, PER á y-ás og punkta sem eru af mismunandi stærð eftir því hve margar mínútur leikmennirnir spila að meðaltali í leik. Lendi leikmaður á hvíta svæðinu sem liggur á ská frá neðra vinstra horninu upp í efra hægra hornið á myndinni hér að neðan, er sá leikmaður nýttur í samræmi við getu og hæfni. Sé hann staðsettur á græna svæðinu er hann mögulega vannýttur eða mjög skilvirkur sérfræðingur með afmarkað hlutverk í sóknarleik liðsins. Dæmi um sérfræðinga eru t.d. Darius Tarvydas hjá Keflavík í fyrra sem lauk leiktíðinni með Usg% 18,7 og PER í nálægt 25,2. Annað dæmi væri Kristófer Acox á síðustu leiktíð með 17,9 í Usg% og 25,3 í PER. Mjög skilvirkir sérfræðingar með ólík hlutverk í sínum liðum.  Lendi leikmaður hins vegar á rauða svæðinu má færa rök fyrir því að leikmaður sé ekki nægilega skilvirkur miðað við þann fjölda atlaga sem hann eignar sér. Hann gæti því mögulega þurft að hleypa fleirum í liðinu meira inn í sóknarleikinn. Dæmi um slíka leikmenn er David Azore sem lék með Grindavík í upphafi þessarar leiktíðar en tölurnar hans voru 31,7 í Usg% og 11,4 í PER. Aðrar ástæður gætu einnig legið að baki eins og að liðið sé mögulega ekki vel mannað og umræddur leikmaður að axla of mikla ábyrgð á sóknarleik liðsins. Ítreka skal samt að hér er aðeins um vísbendingar að ræða og því mikilvægt að draga ályktanir með það til hliðsjónar. Leikmaður gæti haft meira fram að færa til liðsins sem þessir tölfræðivísar fanga ekki. Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig þessi svæði liggja og einnig hvernig staðan var hjá Aliyuh Collier hjá Njarðvík í nóvember. Hún var þarna (og er enn) heilu stórstjörnutímabili yfir meðalleikmanni (45,8 í PER).

Ég hef útbúið svona punktarit fyrir bæði Subwaydeild karla og kvenna á sitthvorri síðunni á vefsvæði Grid.is auk þess sem hægt er að sjá helstu einstaklingsskilvirknivísa fyrir hvern og einn leikmann í töflu fyrir neðan þau. Hægt er að sía út ákveðin lið fyrir bæði punktaritið og töfluna auk þess að hægt er að nota leitina til að finna einstaka leikmenn. Skýringar á hverjum og einum tölfræðivísi er að finna neðst á síðunni.

Tengla á skilvirkni leikmanna er að finna hér að neðan:

Skilvirkni leikmanna – Subwaydeild karla

Skilvirkni leikmanna – Subwaydeild kvenna