Þór frá Þorlákshöfn tók á móti Stjörnunni í Icelandic Glacial höllinni í kvöld í Subway deild karla. Fyrir leik höfðu heimamenn aðeins unnið einn leik og sátu í næstneðsta sæti deildarinnar, en Stjörnumenn höfðu unnið fjóra.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og höfðu yfirhöndina að loknum fyrsta leikhluta, 23-21. Forskotið jókst bara í öðrum fjórðungi, og var í átta stigum í hálfleik 58-50. Þórsarar höfðu síðan tögl og hagldir á vellinum í seinni hálfleik, og hreinlega gengu frá gestunum. Lokaniðurstaðan öruggur 24 stiga sigur Þórs, 128-104.

Vincent Shahid var magnaður í liði heimamanna með 41 stig, og Styrmir Snær Þrastarson var engu síðri með 26 stig. Hjá Stjörnunni var Robert Turner stigahæstur með 29 stig.

Næsti leikur Þórs er 30. desember á útivelli gegn Grindavík, en kvöldið áður, 29. desember, taka Stjörnumenn á móti KR í Umhyggjuhöllinni.

Tölfræði leiks