Í kvöld tóku Hrunamenn á móti grönnum sínum frá Selfossi í leik í 1. deild karla. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í 4.- og 5. sæti. Hrunamenn byrjuðu keppnina í deildinni ekki vel en hafa verið á góðu skriði undanfarið á meðan gengi Selfyssinga á leiktíðinni hefur verið rysjótt frá upphafi. Selfyssingar unnu öruggan sigur á Hrunamönnum þegar liðin mættust á Selfossi í 2. umerð keppninnar. Í þetta skiptið var fyrirstaðan meiri. Leikurinn var hnífjafn frá upphafi til enda. Lokatölur voru 97-102 og réðust úrslitin alveg í blálokin.

Leikurinn var leikinn í hægum takti og var alls ekki harður. Kurteisin var í hávegum höfð, meira um sóknir en varnir. Selfyssingar brutu t.a.m. varla af sér allan seinni hálfleikinn. Dómarar Davíð og Elías höfðu allt undir góðri stjórn. Hrunamenn léku vörnina maður gegn manni allan tímann en Selfyssingar léku tvö afbrigði svæðisvarnar auk maður á mann varnarinnar. Hrunamenn fundu lausnir á fyrra afbrigði svæðisvarnar nágranna sinna. Boltinn gekk á milli manna þar til gott færi gafst til að skjóta á körfuna og þá var Haukur Hreinsson iðinn við að ráðast að hringnum, draga til sín varnarmenn og senda á liðsfélagana. Haukur hefur gott auga fyrir sendingaleiðum og tímasetur sendingar sínar einkar vel. Seinna svæðisvarnarafbrigði Selfyssinga virkaði betur. Það leit út eins og 5+1 handboltavörn með Ísar Frey Jónsson í hlutverki fremsta manns sem hann leysti prýðilega. Hrunamenn náðu varla nokkurn tíma að brjóta sig í gegnum þá vörn.

Sóknarleikur Selfossliðsins flæddi ágætlega. Liðið leitaði að leiðum í gegnum vörn heimamanna og fann opnanir ýmist með 3ja stiga skotum, gegnumbrotum eða með því að leita til Geralds Robinson niðri á póstinum. Það var skilvirkasta leiðin. Gerald skoraði 49 stig, var með 93% 2 stiga skotnýtingu, 7 fiskaðar villur og 49 stig. Sannkallaður stórleikur hjá Gerald. Ísak Júlíus var líka frábær fyrir Selfyssingana með 19 stig og 11 stoðsendingar. Kennedy skoraði 14 stig og framlag Ísars Freys í svæðisvörninni réði úrslitum leiksins.

Besti leikmaður Hrunamanna var eins og oftast áður Amhad Gilbert. Hann skoraði 42 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók 11 fráköst. Eyþór Orri var góður í fyrri hálfleiknum og Haukur í þeim síðari. Sam skilaði 27 stigum en hann réð ekkert við Gerald í teignum. Konrad Tota þjálfari Hrunamanna reyndi að bregðast við stórleik Geralds með því að setja miðherjann Yngva Frey til höfuðs honum. Það virkaði ekki. Gerald hefur reynslu og útsjónarsemi til að ráða fram úr svoleiðis hindrun og fór létt með það. Strákarnir sem hafa í síðustu leikjum Hrunamanna staðið svo vel náðu sér ekki á strik í kvöld.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Myndir / Birgitte Brugger