Tindastóll lagði Þór í spennuleik í Síkinu í kvöld í 9. umferð Subway deildar karla, 88-86. Eftir leikinn er Tindastóll í 4.-6. sæti deildarinnar með 10 stig líkt og Haukar og Njarðvík á meðan að Þór er sem áður í 11.-12. sætinu með 2 stig líkt og KR.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikurinn spennandi í lokin og fengu Þórsarar nokkur góð tækifæri til þess að jafna leikinn eða stela sigri á lokasekúndunum. Allt kom þó fyrir ekki og Stólarnir náðu að halda út, en eftir nokkuð góðan fyrri hálfleik, sem þeir leiddu með 18 stigum eftir, náðu gestirnir úr Þorlákshöfn að vinna sig inn í leikinn og gera hann spennandi á lokametrunum.

Atkvæðamestir fyrir Tindastól í leiknum voru Adomas Drungilas með 20 stig, 5 fráköst og Arnar Björnsson með 19 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir Þór var Vincent Shadid atkvæðamestur með 33 stig og 6 fráköst. Honum næstur var Styrmir Snær Þrastarson með 16 stig og 3 fráköst.

Bæði lið eiga leik næst komandi fimmtudag 15. desember. Þá fær Þór Stjörnuna í heimsókn í Þorlákshöfn og Tindastóll mætir KR í Vesturbænum.

Tölfræði leiks