Grindavík lagði Þór í HS Orku Höllinni í kvöld í 11. umferð Subway deildar karla, 95-93

Eftir leikinn er Grindavík í 6. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan að Þór er í 11. sætinu með 4 stig.

Heimamenn í Grindavík byrjuðu leik dagsins mun betur en gestirnir, ná að byggja sér upp 10 stiga forystu strax í fyrsta leikhlutanum, 22-12. Gestirnir úr Þorlákshöfn ranka aðeins við sér undir lok fyrri hálfleiksins, en Grindavík er þó enn 7 stigum á undan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-40.

Grindvíkingar setja svo fótinn aftur á bensíngjöfina í upphafi seinni hálfleiksins og ná að koma sér í ansi þægilega stöðu fyrir fjórða leikhlutann, 77-59.

Í lokaleikhlutanum ná Þórsarar að hlaða í ágætis áhlaup. Koma forystu heimamanna niður í eitt stig þegar um ein og hálf mínúta er til leiksloka, 91-90. Kristófer Breki Gylfason setur þrist fyrir Grindavík í sókninni á eftir, 94-90. Þórsarar svara um leið með þrist frá Vincent Shadid og um 20 sekúndur á klukkunni, 94-93. Í næstu sókn Grindavíkur setja þeir eitt víti niður og því fær Þór boltann með 8 sekúndur á klukkunni og aðeins tveimur stigum undir, 95-93. Í lokasókninni nær Vincent Shadid sæmilega opnu þriggja stiga skoti, sem hefði unnið leikinn fyrir Þór, en allt kemur fyrir ekki, boltinn skoppar af hringnum og Grindavík fer með sigur af hólmi, 95-93.

Atkvæðamestur fyrir Grindavík í leiknum var Ólafur Ólafsson með 24 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar. Honum næstur var Damier Pitts með 26 stig og 7 fráköst.

Fyrir Þór voru Vincent Shadid með 36 stig, 6 fráköst, 7 stoðsendingar, 4 stolna bolta og þá skilaði Styrmir Snær Þrastarson 19 stigum, 12 fráköstum, 8 stoðsendingum og 5 stolnum boltum.

Grindavík á leik næst komandi fimmtudag 5. janúar heima gegn KR, en degi seinna þann 6. janúar heimsækir Þór lið Breiðabliks í Smárann.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)