ÍA sendi rétt í þessu frá sér yfirlýsingu þess efnis að félagið harmaði og fordæmdi með öllu hegðun starfsmanns á vegum Hamars sem að þeirra sögn fékk óáreittur og ítrekað að áreita leikmenn þeirra á meðan leik þeirra í fyrstu deild karla stóð í gærkvöldi.

Þar er sérstaklega tekið fram að leikmaður ÍA Jalen Dupree hafi mátt þola hatursorðræðu frá téðum starfsmanni, en yfirlýsinguna má lesa í heild hér fyrir neðan.

“Yfirlýsing frá körfuknattleiksdeild ÍA vegna óviðeigandi ummæla

Stjórn körfuknattleiksdeildar ÍA harmar og fordæmir með öllu hegðun starfsmanns á vegum Hamars í leik Hamars og ÍA í 1. deild karla sem átti sér stað í gær.

Starfsmaðurinn fékk óáreittur og ítrekað að áreita leikmenn ÍA og þá sérstaklega Jalen Dupree sem taldi sig upplifa sig sem fornarlamb hatursorðræðu í sinn garð.

Það er von stjórnar Körfuknattleiksdeildar ÍA að hart verði tekið á þessu innan körfuknattleiksdeildar Hamars og að tryggt verði að aðstæður sem þessar komi aldrei upp aftur svo leikmenn og þjálfarar af öllum kynjum og kynþáttum geti spilað leiki án þess að eiga á hættu að verða fyrir fordómum eða mismunun af einhverju tagi.

Virðingarfyllst,

Stjórn körfuknattleiksdeildar ÍA”