Körfuboltinn er sú íþrótt sem hefur hve mest sótt í sig veðrið hér á Íslandi og verður sífellt vinsælli með hverju árinu. Fjöldi iðkenda íþróttarinnar er sagður hafa farið fram úr handboltanum á síðasta ári. Einn af þeim sem á vafalaust stóran þátt í því er íþróttafréttamaðurinn og þjálfarinn Kjartan Atli Kjartansson sem hefur náð að lyfta allri umfjöllun um íslenska körfuboltann á efri stig.

Kjartan hefur einnig verið iðinn með pennann því hann hefur nú skrifað einar 6 bækur um körfubolta síðustu ár. Fjórar þeirra hafa komið út hér á landi en hinar voru skrifaðar fyrir bandarískan markað. Nú á fyrir þessi jól gaf hann út tvær bækur. Stjörnurnar í NBA, sem kom út nú í haust og fylgir Kjartan þar eftir bók sinni Hrein karfa sem kom út í fyrra, bandaríski körfuboltinn er ein vinsælasta íþrótt heims og stjörnur NBA þær stærstu, en farið er yfir þær allra stærstu í bókinni. Hinsvegar gaf Kjartan út skáldsöguna Langskot í lífsháska í samstarfi við höfundinn vinsæla Braga Pál Sigurðarson, en hún er einskonar framhald af vinsælli bók Kjartans frá því í fyrra sem bar nafnið Saman í liði og fjallar um krakkana Lóu og Börk.

Karfan hafði samband við Kjartan og fékk hann til þess að svara nokkrum spurningum um bækurnar, útgáfuna og framhaldið.

Hvað hefur þú gefið út margar bækur núna og hvaða bækur eru það sem komu út núna fyrir

þessi jól?

„Nú eru bækurnar orðnar sex. Fjórar hér á Íslandi og tvær í Bandaríkjunum. Á þessu ári kláruðum við þrjár bækur, útgefandinn og ég. Sem betur fer var skipulagið gott, unnum jafnt og þétt yfir árið.

2020 gáfum við út bókina Hrein karfa. Snemma árs 2021 hófst samstarf við bandaríska útgáfu sem heitir Abbeville um að gera bókina Stars of the NBA. Svo fyrir jólin það ár kom út fyrsta skáldsagan eftir mig: Lóa og Börkur – Saman í liði.

Í ár eru bækurnar svo þrjár. Í Bandaríkjunum kom út Legends of the NBA og hér á landi Stjörnurnar í NBA og önnur bókin um Lóu og Börk, Langskot í lífsháska.

Stjörnurnar í NBA er að miklu leyti byggð á bókunum sem við gáfum út í Bandaríkjunum, en við þurftum að það breyta og betrumbæta.

Langskot í lífsháska er sjálfstæð framhaldssaga sem ætluð er 11 – 15 ára.”

Hvað var það sem hvatti þig til þess að fara að skrifa og gefa út bækur?

Snemma árs 2020 hafði ég samband við Tómas Hermansson, sem á Sögur útgáfu ásamt konu sinni Önnu Margréti Marinósdóttur. Ég spurði hvort Sögur hefðu áhuga á að gefa út bók um körfubolta og þau voru heldur betur til í það. Tveimur mánuðum seinna fengum við svo heimsfaraldur í fangið og lagðist hefðbundið líf í dvala. Við það gafst góður tími í skrif og upp úr því kom bókin Hrein karfa.

Þegar ég hafði lokið við hana fékk ég svo áskorun úr nokkuð óvæntri átt. Þetta var síðla árs 2020 og Hrein karfa var væntanleg úr prentun. Ég sat við tölvuna í vinnunni, eftir að við höfðum lokið við að fjalla um Meistaradeildina það kvöld. Á meðan ég fletti Hreinni körfu í tölvutæku formi, skoraði félagi minn Reynir Leósson á mig, að skrifa skáldsögu fyrir börn og unglinga. Hann lagði fram sína röksemdafærslu og hugurinn fór strax af stað. Ég tjáði Tómasi útgefanda frá þessari hugmynd og honum leist mjög vel á.

Eftir því sem tíminn leið vonaðist ég svo til þess að Tómas hefði gleymt þessari hugmynd, ég var hræddur við að taka af skarið. En þau Tóms og Anna voru ótrúlega hjálpsöm og tengdu mig svo við einn af mínum uppáhalds rithöfundum, Braga Pál Sigurðarson. Bragi hjálpaði mér að koma þessari hugmynd að sögu í gott form. Hann ritstýrði fyrstu bókinni um Lóu og Börk, sem við gáfum titilinn Saman í liði. Hluti af sögunni varð til áratug áður, þegar ég starfaði við kennslu. Þá fékk ég hugmynd að framvindunni og hluta sögusviðsins. Því má kannski segja að áskorun Reynis hafi hrist aðeins upp í mér og fengið mig til þess að þora.

Viðtökurnar voru mjög góðar og hvöttu mig til þess að halda áfram. Frá því að hún kom út á Storytel hefur hún verið með á milli 4,6 og 4,7 stjörnur af 5 mögulegum. Hún var í öðru sæti í Garðabæ í kosningu til Bókmenntaverðlauna barnanna. Mér fannst því liggja beinast við að halda áfram að skrifa um körfuboltakrakkana Lóu og Börk.”

Afhverju er mikilvægt að það séu skrifaðar körfuboltabækur?

„Ég ólst upp við að lesa bækurnar eftir Eggert Þór Aðalsteinsson og Þórlind Kjartansson, bæði NBA-Stjörnurnar og NBA ´95. Svo las maður ævisögur þekktra leikmanna og fleira sem maður komst í á tíunda áratug síðustu aldar. Þetta hjálpaði mér að falla enn frekar fyrir íþróttinni auk þess sem bækurnar hjálpuðu mér við að skilja leikinn betur. Þetta er því einhverskonar viðleitni að endurgjalda það sem ég fékk að upplifa þegar ég var yngri. Að reyna að vera hlekkur í keðju.

Aukinheldur er mikilvægt að börn og unglingar geti lesið bækur sem þau geta endurspeglað sig í að einhverju leyti. Nú hafa aldrei verið fleiri krakkar í körfubolta og þau ættu heldur betur að geta séð sig í einhverjum af þeim aðstæðum sem Lóa, Börkur og vinir þeirra lenda í. En körfuboltinn er þó ekkert aðalatriði í þeim bókum, hann er faratækið sem kemur sögunni áfram. Krakkar sem æfa ekki körfubolta ættu sömuleiðis að geta skemmt sér við lesturinn.”

Hvernig fórst þú að því að velja leikmennina í stjörnubókinni?

„Ég valdi þá sem mér finnst mest spennandi núverandi leikmönnum. Einhverja hafði ég skrifað um í Hreinni körfu og fór því í aðrar áttir í umfjöllun um þá.

Þegar kom að því að velja bestu leikmenn sögunnar hafði ég lista NBA yfir 75 bestu leikmenn sögunnar til hliðsjónar. Ég fór að mestu eftir honum en tók líka einhverja af mínum uppáhalds leikmönnum í gegnum tíðina inn.”

Eiga persónur Lóu og Börks einhverjar hliðstæður í raunveruleikanum?

„Ætli þættir úr raunveruleikanum hafi ekki áhrif á öll skáldverk. Ég hef verið í yngri flokka þjálfun síðan 2001 og hef þjálfað ótal körfuboltakrakka sem hafa áhrif á mótun Lóu og Barkar. En mesta hliðastæðan er væntanlega bara beint af heimilinu. Börkur er stundum svolítið svipaður og ég, á það til að ofhugsa hlutina svolítið. Lóa er stundum mjög lík Pálínu Maríu Gunnlaugsdóttur, eiginkonu minni. Lóa er sterkur karakter, svo ekki sé fastar að orði kveðið!

En þetta er svo fyndið með svona skáldsögur. Ég las í viðtölum við rithöfunda að karakterar öðluðust sitt eigið líf. Ég tók því svona mátulega alvarlega. En svo þegar maður byrjar sjálfur að skrifa finnur maður hvað þetta er satt. Við skrifin mótast einhvern veginn gildismat hverrar persónu og út frá því geta þær byrjað að taka ákvörðun sjálfar og breyta kannski einhverju sem maður hafði séð fyrir sér á annan hátt.

En talandi um hliðstæður. Í Langskoti í lífsháska, sem er önnur bókin um þau Lóu og Börk, eru sterkar vísanir í raunveruleikann. Ég byggði hluta framvindunnar á því sem raunverulega kom fyrir þrjá leikmenn. Ég get ekki gefið það upp strax, því þá spilli ég fyrir því sem kemur í sögunni. En þó að ýmislegt sem gerist komi á óvart í sögunni, þá á það sér einhverja hliðstæðu úr raunveruleikanum.”

Fyrir hverja eru þessar bækur?

„Stjörnurnar í NBA er tilvalin á stofuborðið! Hún er bók sem er þægilegt að glugga í. Hún ætti líka að virka vel fyrir unga lesendur sem vilja kynnast bestu leikmönnum NBA enn betur.

Langskot í lífsháska er svo fyrir elstu bekki grunnskólans, ég myndi segja frá sjötta bekk og upp úr. Lóa og Börkur voru að klára níunda bekk og krakkar á svipuðum aldri ættu að geta speglað sig í ýmsu sem kemur upp í bókinni.”

Hvað er á döfinni hjá þér varðandi bókaútgáfu á árinu 2023, eða í framtíðinni?

„Við erum farin að leggja drög að næstu bók um Lóu og Börk. Það er svo hrikalega gaman að sjá sögur verða að bókum og svo að fá að heimsækja grunnskóla og lesa fyrir krakkana. Að skrifa bækur er skemmtileg áskorun, þjálfar þolinmæði og útsjónarsemi. Samvinnan við Sögur finnst mér gefandi og góð, þannig að planið er að halda áfram að skrifa.”