Keflavík lagði Njarðvík í kvöld í 8 liða úrslitum VÍS bikarkeppni karla, 99-86. Keflvíkingar eru því komnir áfram í undanúrslitin ásamt Hetti, Val og Stjörnunni á meðan að Njarðvík eru dottnir úr leik.

Fyrir leik

Leikmenn beggja liða að mestu heilir fyrir átök kvöldsins, þar sem þó vantaði enn Hauk Helga Pálsson í lið Njarðvíkur, en hann hefur ekkert leikið fyrir liðið síðan hann meiddist í leik með landsliðinu gegn Georgíu um miðjan nóvember. Einnig lék bakvörður þeirra Oddur Rúnar Kristjánsson ekkert í leiknum þrátt fyrir að vera í hóp, en hann er einnig að jafna sig á meiðslum.

Gangur leiks

Heimamenn í Keflavík voru með ágætis tök á leiknum í fyrsta leikhlutanum. Leiða mest með 8 stigum í fjórðungnum, en Njarðvík gerir vel í að halda leiknum nokkuð jöfnum, aðeins 5 stiga munur fyrir annan, 23-18. Sóknarlega mættu bandarískir leikmenn liðanna tveggja nokkuð vel gíraðir til leiks, Eric Ayala með 8 stig í þeim fyrsta fyrir Keflavík á meðan að Dedrick Basile var kominn með 9 stig fyrir Njarðvík. Í upphafi annars fjórðungs ná heimamenn góðu áhlaupi, þar sem mest fer forysta þeirra í 16 stig þegar 5 mínútur eru til hálfleiks. Njarðvík nær þó að stöðva blæðinguna og halda sér inni í leiknum, mikið til þökk sé þristum frá Nacho Martin og Nicolas Richotti. Keflavík þó enn 9 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 53-44.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Eric Ayala með 17 stig á meðan að Dedrick Basile var einnig kominn í 17 stig fyrir gestina úr Njarðvík.

Keflvíkingar mæta nokkuð beittir til leiks í seinni hálfleiknum. Fá þristana til þess að detta fyrir sig á sóknarhelmingi vallarins og ná að bæði hægja á og stöðva mikið af því sem Njarðvík var að gera í sókn sinni. Bæta aðeins við fenginn hlut og fara með 17 stiga forystu inn í lokaleikhlutann, 79-62. Í þeim fjórða gerði Keflavík svo það sem þurfti til þess að sigra leikinn að lokum nokkuð þægilega, 99-86.

Atkvæðamestir

Bestir í liði Keflavíkur í kvöld voru Dominykas Milka með 22 stig, 10 fráköst og Eric Ayala með 26 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar.

Fyrir Njarðvík var það Dedrick Basile sem dró vagninn með 27 stigum og 10 stoðsendingum. Þá bætti Nicolas Richotti við 22 stigum og 5 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst í Subway deildinni. Keflavík heima gegn ÍR komandi fimmtudag 15. desember, en Njarðvík heimsækir Íslandsmeistara Vals degi seinna.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)