Stuttu fyrir leik var tilkynnt að Finnur Freyr Stefánsson  þjálfari Valsliðsins væri kominn í frí af fjölskyldu ástæðum og Ágúst Björgvinsson myndi leysa hann af meðan á því stendur. VIð sendum Finni kveðjur af þessu tilefni, vonandi nær fjölskyldan að vinna úr þessu eins vel og hægt er.Jafnræði er með liðunum í byrjun en Keflavík nær síðan sjö stiga forskoti 8-15 þegar fimm mínútur eru liðnar af leiknum og Keflvíkingar ná að nýta hæðarmun auk þess að hitta betur úr þristum. Sóknarleikur Valsmanna óvenju óskipulagður og 10 stiga munur 9-19 fyrir Keflavík þegar fjórar mínútur eru eftir af fyrsta fjórðungi. Skotnýting Valsmanna er ekki góð en Keflvíkingar spila fína vörn og nýta skotin betur og ná 11 stiga  forskoti 14-25 og Valsmenn taka leikhlé þegar tæpar tvær mínútur eru eftir af leikhlutanum.  Valsmenn setja tvær körfur í röð og minnka muninn í sex stig en Keflavík setur flautukörfu í lok leikhlutans og Keflavík leiðir verðskuldað 19-27 eftir fyrsta leikhlutann

Annar leikhluti hefst með þristi eftir sóknarfrákast hjá báðum liðum en Valsmenn ná að stela boltanum og skora í tvígang og minnka muninn í 4 stig eftir tvær mínútur.  Liðin skiptast svo á körfum en Keflavík alltaf skrefi á undan. Athyglisvert að liðin eru dugleg að sækja sóknarfráköst! Nokkuð jafnræði er í leiknum næstu mínútur og Keflavík heldur forystu 32-41 þegar þrjár mínútur eru til hálfleiks. Keflavík setur tvo þrista í röð og auka við forskotið 37-49 og mínúta eftir. Keflavík hefur verið mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hafa tíu stig á Val í hálfleik, staðan 39-49.

Keflvíkinga setja fyrstu fimm stig seinni hálfleiks en Valsmenn svara með þristi en Keflvíkingar fá auðvelt skot í kjölfarið. Keflvíkingar enn sterkari aðilinn í leiknum og ná 15 stiga forskoti 43-58 eftir þrjár mínútur í þriðja leikhluta. Ekkert bendir til annars en að Keflavík fari með öruggan sigur í þessum leik. Allt gengur upp hjá þeim og Valur tekur leikhlé í stöðunni 43-63 og sex mínútur eftir af fjórðungnum.  Valsmenn ná aðeins að laga stöðuna í 51-65 en einhvernveginn er eins og Keflavík eigi auðveldara með að koma sér í færi og nýta sér hæðarmuninn og eru að frákasta taæsvert meira en Valsmenn – stemmningin er öll Keflavíkurmegin! Keflvíkingar leiða með 17 stiga mun 55-72 fyrir lokaleikhlutann. Ekkert bendir til annars en að Keflavík fari með sigur af hólmi í þessum leik! 

Stemmningin er ennþá Keflvíkinga í byrjun fjórða leikhluta og allar aðgerðir Valsmanna eru erfiðar og sóknarleikurinn stirður. Alltaf þegar Valsmenn ná smá áhlaupi nær Keflavík að svara með körfu  – munurinn helst í 12-16 stigum fyrstu þrjár mínútur fjórða leikhluta en þá koma nokkrar körfur í röð hjá Keflavík og munurinn allt í einu 25 stig þegar fjórðungurinn er hálfnaður – 65-90. Valsmenn ná ekki að veita nógu mikla mótspyrnu og Keflvíkingar einfaldlega miklu betra liðið í þessum leik og unnu verðskuldaðan stórsigur 75-100 og eru þá með 12 stig ásamt Val og Breiðablik á toppi deildarinnar.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Hannes Birgir