Keflavík lagði ÍR í Blue Höllinni í kvöld í 10. umferð Subway deildar karla, 108-88. Eftir leikinn er Keflavík eitt liða í efsta sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að ÍR er í 10. sætinu með 6 stig.

Fyrir leik

Liðin voru að mestu fullskipuð fyrir leik kvöldsins. Þó vantaði enn Sigvalda Eggertsson í lið ÍR enb hann hefur verið að jafna sig á höfuðhöggi síðustu mánuði.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað þar sem að gestirnir í ÍR leiddu lengst af í fyrsta leikhluta. Undir lok fjórðungsins nær Keflavík þó að rétt sinn hlut og eru stigi yfir fyrir annan fjórðung, 21-20. Áfram gera gestirnir vel í að verjast heimamönnum í öðrum fjórðungnum og skiptast liðin í nokkur skipti á forystunni undir lok fyrri hálfleiksins. Heimamenn ná að vera skrefinu á undan til búningsherbergja í hálfleik, 48-44.

Stigahæstur Keflvíkinga í fyrri hálfleiknum var Eric Ayala með 14 stig á meðan að Hákon Örn Hjálmarsson var kominn með 12 stig fyrir ÍR.

Í upphafi seinni hálfleiksins ná Keflvíkingar að halda fengnum hlut gegn ólseigum ÍR-ingum. Fimm stiga munur fyrir lokaleikhlutann, 74-69. Aðeins var farið að kræla á villuvandræðum hjá lykilleikmönnum beggja liða á þessum tímapunkti. Hjá Keflavík var Dominykas Milka kominn með þrjár villur og þá voru bæði Collin Pryor og Taylor Johns með þrjár villur hjá ÍR.

Heimamenn ná góðu áhlaupi í upphafi fjórða leikhlutans, þar sem þeir setja forystu sína í 11 stig á fyrstu rúmu tveimur mínútum fjórðungsins, 83-72, en það var mesti munur liðanna í leiknum til þessa á þeim tímapunkti. Mikið til var þetta leikmanni Keflavíkur Halldóri Garðari Hermannssyni að þakka, sem setti þarna ein sjö stig í röð fyrir heimamenn. Þeir ná svo enn frekar að ganga á lagið á næstu mínútum og er munurinn kominn í 18 stig þegar um fimm mínútur eru til leiksloka, 92-74. Þeirri forystu ná þeir svo að hanga á og klára leikinn með nokkuð sterkum 20 stiga sigri, 108-88.

Atkvæðamestir

Bestur í jöfnu liði Keflavíkur í kvöld var Eric Ayla með 22 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Fyrir ÍR var það Taylor Johns sem dró vagninn með 23 stigum og 12 fráköstum.

Hvað svo?

Við tekur stutt jólafrí fyrir bæði lið, en þau mæta svo aftur þann 29. desember, en þá fær ÍR nýliða Hattar í heimsókn í Skógarselið og Keflavík heimsækir Njarðvík í Ljónagryfjuna.

Tölfræði leiks