Liðin sem börðust um Íslandsmeistaratitilinn síðasta tímabil mættust í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld þegar Tindastóll tók á móti Val í Subway deild karla.

Gestirnir, sem voru án Kristófer Acox í kvöld, byrjuðu leikinn mun betur og þegar staðan var orðin 6-14 tók Vlad leikhlé enda heimamenn ennþá að melta jólasteikina. Leikur Tindastóls skánaði þó ekki mikið eftir það og Valsmenn voru áfram miklu ákveðnari í öllum sínum aðgerðum. Sú staðreynd að Tindastóll hafði aðeins fengið eina villu dæmda á sig þegar 9 mínútur voru liðnar af leiknum segir mikið um stemningsleysið hjá heimamönnum og þegar fyrsta leikhluta lauk voru gestirnir komnir með 11 stiga forystu, staðan 17-28. Stólar komu aðeins ákveðnari inn í annan leikhluta, hertu vörnina en sóknin var ennþá stirð. Heimamenn náðu muninum niður í 5 stig en þá kom tæknivilla á Vlad og Valur náði aftur að rykkja frá heimamönnum. Tindastóll náði muninum niður í 2 stig 36-38 en Pablo Bartone átti síðasta orðið í hálfleiknum með þrist.

Tindastóll byrjaði seinni hálfleikinn svipað og þann fyrri, algerlega andlausir og Valur náði fljótt 10 stiga forystu sem þeir juku svo í 13 stig um miðjan leikhlutann. Stólar bitu á jaxlinn og komu með áhlaup sem náði muninum niður í 7 stig fyrir síðasta leikhlutann, sem er enginn munur í körfubolta. Áhlaupið hélt áfram í upphafi 4. leikhluta og þristur frá Pétri Rúnari kom muninum niður í 3 stig 59-62 og Valur tók leikhlé. Lokamínúturnar voru jafnar og æsispennandi og þristar frá Keyshawn og Zoran komu Tindastól í fjögurra stiga forystu þegar rétt innan við 2 mínútur lifðu leiks. Valsmenn tóku leikhlé og svöruðu með 2 þristum frá Hjálmari og Callum á meðan Stólar fóru illa að ráði sínu í sókninni. Keyshawn jafnaði í 73-73 þegar mínúta var eftir og átti séns á sigurkörfu í lokin en brást bogalistin og framlenging staðreynd. Ozren opnaði framlenginguna og Pétur Rúnar svaraði með þrist en síðan kom kafli þar sem liðin skiptust á að kasta frá sér boltanum. Næstu stig komu úr 2 vítum frá Kára 3 mínútum seinna og Valsmenn komnir yfir. Callum Lawson kom gestunum 3 stigum yfir en Keyshawn svaraði og munurinn 1 stig þegar rétt tæp mínúta var eftir og allt á suðupunkti í Síkinu. Í næstu sókn Valsmanna náði Hjálmar gríðarstóru sóknarfrákasti og setti svo tvö víti niður í kjölfarið sem segja má að gert hafi út um leikinn þó að sirkusþristur frá Bertone hafi verið síðustu stigin á töfluna eftir að leikur heimamanna leystist upp í vitleysu, 78-84.

Woods var stigahæstur heimamanna með 23 stig en hægði oft um of á sóknarleik heimamanna. Pétur Rúnar var með 14 stig og 7 fráköst og var framlagshæstur ásamt Taiwo Badmus. Skiptingar Stólanna vöktu oft athygli þar sem menn voru oft teknir útaf um leið og þeir byrjuðu að hitna. Hjá Valsmönnum voru Callum, Bertone og Kári (13 stig, 9 stoðsendingar) öflugastir og Hjálmar gríðarlega mikilvægur.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hjalti Árna)

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna