ÍR lagði KR á Meistaravöllum í kvöld í 8. umferð Subway deildar karla, 88-95. Eftir leikinn er ÍR í 8.-10. sæti deildarinnar með 6 stig líkt og Grindavík og Höttur á meðan að KR er í 11. sætinu með 2 stig.

Fyrir leik

Bæði lið verið afleit nú í byrjun tímabils. KR unnið einn leik það sem af er deildarkeppni, gegn Þór í Þorlákshöfn, en ÍR unnið tvo af sjö, í fyrstu umferð gegn Njarðvík og svo í þeirri síðustu gegn Þór. Til þess að bæta gráu ofan á svart eru bæði lið einnig úr leik í VÍS bikarkeppninni.

Gangur leiks

Heimamenn í KR byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Ná á upphafsmínútunum að komast10 stigum yfir, 12-2. Gestirnir svara því þó nokkuð snögglega og hafa yfirhöndina út fyrsta leikhlutann, 22-26. Sóknarlega var Þorvaldur Orri Árnason að gera mikið fyrir heimamenn, með 11 stig í aðeins 6 skotum á sóknarhelming ÍR var Taylor Johns illviðráðanlegur á þessum upphafsmínútum með 9 stig og 8 fráköst. Mikið jafnræði var svo á með liðunum í öðrum leikhlutanum. KR fékk virkilega flotta innkomu frá ungum bakverði sínum Veigari Áka Hlynssyni, en áfram gerði Taylor KR lífið leitt á varnarhelmingi þeirra. Undir lok hálfleiksins ná gestirnir svo smá áhlaupi og eru 6 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 45-51.

Stigahæstur í liði KR í fyrri hálfleiknum var Þorvaldur Orri Árnason með 14 stig, en fyrir ÍR var Taylor Johns kominn með 17 stig.

Seinni hálfleikinn hefja heimamenn af krafti og eru snöggir að skera niður forskot ÍR. Leikurinn er þó áfram jafn þar sem að liðin skiptast á snöggum áhlaupum út þriðja fjórðunginn, en staðan fyrir þann fjórða var 70-68. Lykilmenn í báðum liðum voru komnir í væg villuvandræði í upphafi þess fjórða, hjá KR voru Dagur Kár Jónsson og Þorvaldur Orri báðir komnir með þrjár villur og hjá ÍR var Collin Pryor einnig með þrjár.

Áfram halda liðin að skiptast á körfum í upphafi fjórða leikhlutans. Mikið jafnræði var á með liðunum fram á lokamínúturnar, staðan 77-76 þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Undir lokin fékk ÍR skot sín til þess að detta á meðan að í sóknarleik KR virtist lítið ganga upp. Niðurstaðan að lokum fimmti ósigur KR á heimavelli í röð, 88-95.

Atkvæðamestir

Bestur í liði KR í kvöld var Jordan Semple með 15 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir ÍR var það Taylor Johns sem dró vagninn með 24 stigum, 18 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Hvað svo?

Næst á ÍR leik þann 8. desember gegn Íslandsmeisturum Vals í Skógarseli á meðan að KR mætir Njarðvík í Ljónagryfjunni degi seinna.

Tölfræði leiks