Haukar tóku á móti Breiðabliki í Subway deild kvenna í kvöld. Fyrir leik höfðu Hafnfirðingar unnið 11 leiki og tapað tveimur, en gestirnir höfðu unnið þrjá og tapað tíu, og sátu í næstneðsta sæti deildarinnar.

Haukar fengu mikinn liðsstyrk fyrir leik kvöldsins, en þær Helena Sverrisdóttir og Lovísa Björt Henningsdóttir reimuðu báðar á sig skóna í fyrsta skipti á þessu tímabili, en báðar hafa þær verið meiddari hingað til.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, og jafnt á öllum tölum að honum loknum, 16-16. Haukar settu hins vegar í fluggír í öðrum fjórðung, unnu hann 21-6 og leiddu því með fimmtán stigum í hálfleik, 37-22.

Eftir jafnan þriðja leikhluta sigldu haukar loks heim öruggum 22 stiga sigri, lokatölur 68-46.

Keira Robinson var stigahæst í Haukaliðinu með 20 stig, en í liði Blika var Sanja Orazovic stigahæst með 14. Helena Sverrisdóttir var stigalaus á sínum fyrstu 8 mínútum í vetur, en Lovísa Henningsdóttir skoraði 2 stig á 15 mínútum.

Næsti leikur Hauka er á nýju ári, en liðið tekur á móti ÍR þann 4. janúar 2023. Sama kvöld mæta Blikar Valskonum á útivelli.

Tölfræði leiks