Grindavík lagði Hött í kvöld í 8. umferð Subway deildar karla á Egilsstöðum, 87-91. Eftir leikinn er Grindavík í 6.-8. sæti deildarinnar með 8 stig á meðan að Höttur er í 9.-10. sætinu með 6 stig.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikurinn nokkuð spennandi frá byrjun til enda. Grindavík leiddi með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 26-29 og þegar í hálfleik var komið var munurinn enn þrjú stig, 49-52. Heimamenn náðu aftur forystunni í þriðja leikhlutanum, en fyrir þann fjórða leiddu þeir með minnsta mun mögulegum, 72-71. Undir lokin náði Grindavík svo aftur að vera skrefinu á undan og að lokum vinna leikinn með fjórum stigum, 87-91.

Timothy Guers átti góðan leik fyrir Hött þrátt fyrir tapið og skilaði 29 stigum úr aðeins 15 skotum af vellinum í leiknum. Honum næstur var Nemanja Knezevic með 11 stig og 10 fráköst.

Fyrir Grindavík var Damier Pitts bestur með 27 stig, 5 fráköst, 6 stoðsendingar og Kristófer Breki Gylfason honum næstur með 21 stig.

Höttur á leik næst komandi fimmtudag 8. desember gegn Keflavík í Blue Höllinni, en Grindavík taka á móti Blikum degi seinna.

Tölfræði leiks