Fjölnir lagði Breiðablik í kvöld í Subway deild kvenna, 93-51. Eftir leikinn er Fjölnir í 5. sæti deildarinnar með 8 stig á meðan að Breiðablik er í 7. sætinu með 4 stig.

Leikurinn var nokkuð jafn á upphafsmínútunum og voru það gestirnir úr Kópavogi sem náðu að vera skrefinu á undan að loknum fyrsta leikhluta, 16-19, en mest höfðu þær náð 9 stiga forystu í fyrsta fjórðung. Í upphafi annars leikhlutans ná Blikar svo áfram að vera á undan, en um miðjan fjórðunginn komast heimastúlkur loks aftur yfir í fyrsta skipti síðan á fyrstu sekúndum leiksins. Undir lok hálfleiksins láta þær svo kné fylgja kviði og er forysta Fjölnis komin í 15 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-32.

Segja má að heimakonur hafi gert útum leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Með sterkum 29-12 þriðja fjórðung keyra þær forystu sína upp í 32 stig fyrir lokaleikhlutann, 76-44. Eftirleikurinn að er virtist auðveldur, niðurstaðan að lokum mjög svo öruggur sigur Fjölnis, 93-51.

Atkvæðamest heimakvenna í leiknum var Taylor Jones með 23 stig, 13 fráköst og3 stoðsendingar. Fyrir Blika var það Sanja Orozovic sem dró vagninn með 19 stigum og 14 fráköstum.

Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 7. desember. Breiðablik fær Íslandsmeistara Njarðvíkur í heimsókn í Smárann á meðan að Fjölnir heimsækir Hauka í Ólafssal.

Tölfræði leiks