Kvennalið Hauka tók á móti Fjölni í Subway deild kvenna í kvöld og áttu frekar auðvelt með þær, en þær unnu leikinn 92-77. Haukakonur byrjuðu sterkt og ekki var aftur snúið, sérstaklega eftir handameiðsli Dagnýjar í öðrum leikhluta. Dagný og Kiera Robinson skullu saman og virtist sem að Dagný hafi mögulega brotnað. Hún fór uppá slysadeild í miðjum leiknum og enn er ekki vitað hvað kemur úr því.

Gangur leiks

Tinna Guðrún, leikmaður Hauka, byrjaði leikinn sjóðandi heit og hóf keppni með því að negla niður 4 þristum í röð, en hún var samtals með 5/7 fyrir utan línuna í fyrsta leikhluta og 18 stig. Jafnmörg og öllu liði Fjölnis tókst að skora, en fyrsti leikhluti endaði 30-18 fyrir heimakonum.

Spil og barátta Haukakvenna hélt áfram sömu töktum og komust þær mest í 19 stiga mun. Varnarleikur Hauka var áberandi í fyrri hálfleik þar sem Fjölniskonur voru með 15 tapaða bolta og allir leikmenn í byrjunarliði Hauka með einn eða fleiri stolna bolta. Flestum boltum stal Kiera en hún var með 3 stolna bolta í fyrri hálfleik, 5 í öllum leiknum. Teigsvörnin sagði líka til sín þar sem Eva Margrét var með 3 varin skot í leiknum, öll í fyrri hálfleik. Staðan 55-38 fyrir Haukum í hálfleik.

Í þriðja leikhluta fóru hlutir að snúast við og Fjölniskonur komust á skrið. Þær minnkuðu þó muninn mest í 7 stig og forskot Hauka var aldrei í neinni hættu, en þrátt fyrir það þa unnu Fjölnir þriðja leikhlutann 14-24.

Þrátt fyrir að byrja lokaleikhlutann sterkt, þá var mótstaða Haukakvenna of mikil fyrir Fjölni, og einnig bætti ekki hluti að bæði Sigrún Sjöfn og Urté fóru útaf með fimm villur. Mikill stílmunur einkenndi leikinn, sér í lagi þegar horft er á hvaðan stigin voru að koma hjá liðunum. Á meðan Haukar voru á fullu að skjóta boltanum, og settu 12 þrista, þá skoruðu Fjölnir 56 af sínum 77 stigum í teignum. Haukar unnu leikinn 92-77.

Lykilmenn

Tinna Guðrún fær stórt hrós fyrir sinn frábæra skotleik, þar sem hún setti 7/15 þriggja stiga og var með 30 stig. Næst henni kemst Sólrún Inga með 17 stig. Stærsta stjarna leiksins var þó Keira Robinson sem var með þrennu! 13 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar.

Hér má sjá viðtal við Tinnu

Hér má sjá viðtal við Sigrúnu Sjöfn

Hér má sjá myndir úr leiknum