Breiðablik og þjálfari þeirra í Subway deild kvenna Yngvi Gunnlaugsson hafa komist að samkomulagi að hann stígi til hliðar sem þjálfari liðsins.

Yngvi tók við liðinu fyrir yfirstandandi tímabil, en ekki hefur gengið sem skyldi. Sem stendur er liðið í 7. sæti deildarinnar með tvo sigra úr fyrstu tíu leikjunum.

Við liðinu mun taka leikmaður karlaliðsins Jeremy Smith, en samkvæmt tilkynningu félagsins mun hann stýra liðinu út tímabilið.

Tilkynning:

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks og Yngvi Gunnlaugsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, hafa komist að samkomulagi um að hann stígi til hliðar sem þjálfari liðsins.

Breiðablik þakkar Yngva fyrir samstarfið á tímabilinu og óskar honum alls hins besta.

Þá hefur stjórn Breiðabliks gengið frá ráðningu Jeremy Smith, sem mun taka við þjálfun meistaraflokks og stýra liðinu út tímabilið.