Tindastóll tók á móti toppliði Breiðabliks í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólar höfðu unnið seiglusigur gegn löskuðu liði Grindvíkinga í síðustu umferð á meðan Blikar lögðu Njarðvíkinga í hörkuleik.

Leikurinn fór hratt af stað og Blikar komust í 0-5 á fyrstu mínútunni en Stólar höfðu jafnað áður en næsta mínúta leið. Heimamenn fylgdi því svo eftir með 9-1 kafla og voru komnir með 12 stiga forystu þegar rúm mínúta var eftir af fjórðungnum en Blikar áttu sprett á móti og staðan 30-25 að leikhlutanum loknum. Áhlaup til skiptis og útlit fyrir spennandi leik. Tindastólsmenn voru þó ekki á þeim buxunum og hreinlega slátruðu gestunum í öðrum leikhluta. Vörnin var frábær og flest gekk upp í sókninni. Blikar virtust ráðalausir gegn öflugum leik heimamanna og svo fór að Tindastóll vann leikhlutann 34-8, fáheyrðar tölur í þessari deild. Staðan 64-33 í hálfleik og verkefnið langt komið en það hafa margir brennt sig á því að vanmeta Blikaliðið og áhorfendur í Síkinu því ekki byrjaðir að fagna enn.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn mun öflugri og hófu að naga muninn niður en þeir komust þó muninum aldrei niður fyrir 20 stig og Tindastóll sigldi sigrinum örugglega heim með stæl.

Stólar voru ógnarsterkir í kvöld, sérstaklega í öðrum leikhluta þar sem þeir gerðu í raun út um leikinn. Stigahæstur var Keyshawn með 24 stig og 26 í framlag. Drungilas átti sinn besta leik í vetur með 22 stig og 5 fráköst. Pétur Rúnar skoraði ekki stig en var með 6 fráköst og 6 stoðsendingar auk þess að blokka 2 skot með valdi. Hjá gestunum var Julio Afonso öflugastur með 15 stig en Blikar brotnuðu ansi fljótt við mótlætið og þetta líklega leikur sem þeir vilja gleyma sem fyrst.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna