Tindastóll lagði Grindavík í kvöld í 6. umferð Subway deildar karla. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 5.-8. sæti deildarinnar með þrjá sigra og þrjú töp það sem af er tímabili líkt og Njarðvík og Höttur.

Nokkuð vantaði í lið Grindavíkur í kvöld. Þar sem að nýr bandarískur leikmaður þeirra Damier Pitts er ekki kominn til liðsins og þá var miðherji þeirra Gaios Skordilis sendur í tveggja leikja bann á dögunum.

Leikurinn var í nokkru jafnvægi á upphafsmínútunum, en eftir þann fyrsta leiddi Tindastóll með fimm stigum, 23-28. Í öðrum leikhlutanum nær Tindastóll svo að láta kné fylgja kviði og leiða með 11 stigum þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-55.

Heimamenn í Grindavík mæta dýrvitlausir til leiks í seinni hálfleiknum og ná að snúa taflinu sér í vil í þriðja leikhlutanum, en staðan fyrir lokaleikhlutann var 71-69. Í þeim fjórða nær Tindastóll svo aftur að vera skrefinu á undan og sigra leikinn að lokum nokkuð örugglega, 83-94.

Atkvæðamestur fyrir Grindavík í leiknum var Valdas Vasylius með 23 stig, 11 fráköst og Ólafur Ólafsson honum næstur með 20 stig og 11 fráköst.

Fyrir Stólana var það Taiwo Badmus sem dró vagninn með 23 stigum, 7 fráköstum og Keyshawn Woods bætti við 21 stigi, 6 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Bæði lið eiga leik næst komandi fimmtudag 24. nóvember. Grindavík heimsækir Stjörnuna í MGH og Tindastóll mætir Blikum heima í Síkinu.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)