Valur lagði Breiðablik í kvöld í fyrsta leik 8. umferðar Subway deildar kvenna, 63-90. Eftir leikinn er Valur í 3. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan að Breiðablik er í 5. sætinu með 4 stig.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins höfðu Blikar misst Isabellu Ósk Sigurðardóttur til Íslandsmeistara Vals og þá voru þær enn án bandarísks leikmanns síns Sabrina Nicole Haines, sem hafði reyndar ekki leikið síðan þann 23. október, en samkvæmt heimildum mun hún hafa yfirgefið liðið.

Einnig voru einhver skörð hoggin í leikmannahóp, sem misstu Elínu Sóley Hrafnkelsdóttur í meiðsli í síðasta leik gegn Njarðvík og þá var Guðbjörg Sverrisdóttir enn á meiðslalistanum þeirra og Sara Líf Boama var frá vegna veikinda.

Gangur leiks

Heimakonur í Blikum gerðu 7 fyrstu stig leiksins. Valskonur voru þó fljótar að ranka við sér og eru sjálfar komnar yfir áður en leikhlutinn er hálfnaður, 9-10. Þær láta svo kné fylgja kviði, byggja sér upp ágætis forystu undir lok fjórðungsins og eru 10 stigum yfir fyrir annan, 13-23. Blikar gera ágætlega undir lok fyrri hálfleiksins að missa gestina ekki mikið lengra frá sér. Eru þó 16 stigum undir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 25-41.

Stigahæst Blika í fyrri hálfleiknum var Sanja Orozovic með 12 stig á meðan að í öllu jafnara liði Vals var Simone Gabriel Costa komin með 10 stig.

Heimakonur í Blikum halda áfram að halda í við Val í upphafi seinni hálfleiksins. Missa þó aðeins dampinn undir lok þess þriðja og eru 23 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 47-70. Á þessum tímapunkti leiksins er lítið sem gefur til kynna að Breiðablik verði einusinni nálægt því að gera þetta að leik. Tveir leikmenn þeirra, Rósa Björk Pétursdóttir og Sanja Orozovic, þó spilað á pari, en þær virtust fá ótrúlega litla hjálp á sóknarhelmingi vallarins. Í lokaleikhlutanum gerði Valur það sem þurfti til að sigla að lokum mjög svo öruggum 27 stiga sigur í höfn, 63-90.

Atkvæðamestar

Sanja Orozovic var atkvæðamest í liði heimakvenna í leiknum með 19 stig og 12 fráköst. Fyri Val var það Hallveig Jónsdóttir sem dró vagninn með 20 stigum og 3 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga deildarleik næst þann 9. nóvember næstkomandi, Valur tekur á móti Haukum í Origo Höllinni á meðan að Blikar heimsækja Keflavík.

Tölfræði leiks