Keflavík lagði Breiðablik nokkuð örugglega í kvöld í 9. umferð Subway deildar kvenna 82-47. Eftir leikinn eru Keflavík ennþá taplausar í efsta sæti deildarinnar eftir fyrstu 9 umferðirnar á meðan að Breiðablik er í 9. sætinu með tvo sigra úr fyrstu níu leikjum sínum.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins nokkur einstefna. Blikar náðu þó að hanga í heimakonum í fyrsta leikhluta, þar sem þær voru aðeins einu stigi undir fyrir annan, 18-17. Þegar í hálfleik var komið hafði Keflavík þó byggt sér upp væna forystu, en þær fóru 12 stigum yfir til búningsherbergja í hálfleik, 39-27.

Keflavík gerði svo út um leikinn í byrjun seinni hálfleiksins. Vinna þriðja leikhlutann 32-8 og eru því 35 stigum á undan fyrir lokaleikhlutann, 71-36. Eftirleikurinn var að er virtist nokkuð auðveldur, þar sem að lokum Keflavík hafði sinn níunda deildarsigur í röð, 82-47.

Atkvæðamest fyrir Keflavík í leiknum var Ólöf Rún Óladóttir með 12 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir Blika var það Sanja Orozovic sem dró vagninn með 15 stigum og 14 fráköstum.

Bæði lið eiga leik næst þann 16. nóvember. Keflavík heimsækir Hauka á meðan að Blikar fá Grindavík í heimsókn.

Tölfræði leiks