Keflavík lagði Hauka í kvöld í Subway deild kvenna, 63-68. Eftir leikinn eru Keflavík taplausar í efsta sæti deildarinnar á meðan að Haukar eru í 2. sætinu með átta sigra eftir fyrstu tíu umferðirnar.

Fyrir leik

Liðin höfðu fyrir leik kvöldsins í eitt skipti mæst áður í deildinni í vetur. Þann 5. október síðastliðinn lagði Keflavík lið Hauka í nokkuð spennandi leik, 75-66. Í þeim leik var Daniela Wallen besti leikmaður vallarins, með 26 stig, 11 fráköst og 5 stolna bolta.

Lykilleikmenn vantaði í bæði lið í kvöld. Hjá Keflavík var Birna Valgerður Benónýsdóttir fjarri góðu gamni vegna meiðsla og Ólöfu Rún Óladóttur. Hjá Haukum vantaði enn Helenu Sverrisdóttur og Lovísu Björt Henningsdóttur, en þær hafa enn ekki leikið fyrir liðið á tímabilinu.

Gangur leiks

Leikurinn var nokkuð jafn í fyrsta leikhluta, þrátt fyrir að Keflavík hafi oftar en ekki verið skrefinu á undan. Mest nær Keflavík sex stiga forystu á upphafsmínútunum, en þegar fyrsti fjórðungur er á enda er munurinn aðeins tvö stig, 16-18. Keflavík opnar annan leikhluta á 2-14 áhlaupi og eru því komnar með 14 stiga forystu þegar leikhlutinn er rétt rúmlega hálfnaður, 18-32. Heimakonur gera vel að missa gestina ekki lengra frá sér undir lok fyrri hálfleiksins. Keflavík 13 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 30-43.

Stigahæst Hauka í fyrri hálfleiknum var Keira Robinson með 12 stig og fyrir Keflavík var Karina Denislavova komin með 10 stig.

Nokkuð mikið var farið að bera á villuvandræðum hjá liðunum þegar í hálfleik var komið. Hjá Haukum var Eva Margrét Kristjánsdóttir með 4 villur og Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir með 3 villur. Hjá Keflavík voru Karina og Agnes María Svansdóttir báðar með 3 villur.

Heimakonur mæta með mikið ýgi inn í seinni hálfleikinn og ná aðeins að vinna á forskoti Keflavíkur. Eru þó óheppnar að missa Evu Margréti útaf með fimm villur eftir tæplega sex mínútna leik í seinni hálfleiknum. Með herkjum nær Keflavík að halda forystu út þann þriðja, 50-57. Haukar halda sér inni í leiknum áfram í upphafi þess fjórða. Munurinn þó enn 6 stiga þegar fimm mínútur eru eftir, 57-63. Undir lokin gera heimakonur heiðarlega atlögu að leiknum, en komast aldrei einni körfu eða minna nær Keflavík. Fer svo að lokum að Keflavík vinnur leikinn með fimm stigum, 63-68.

Atkvæðamestar

Keira Robinson var best í liði Hauka í kvöld með 21 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar. Fyrir Keflavík var það Daniela Wallen sem dró vagninn með 16 stigum, 13 fráköstum og 4 stolnum boltum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik eftir landsleikjahlé þann 4. desember. Haukar heimsækja Grindavík á meðan að Keflavík fær Val í heimsókn.

Tölfræði leiks