Keflavík lagði Hauka í kvöld í 5. umferð Subway deildar karla, 106-84. Keflavík er eftir leikinn í 1.-3. sæti deildarinnar með 8 stig líkt og Breiðablik og Valur á meðan að Haukar eru í 4.-5. sætinu með 6 stig líkt og Njarðvík.

Fyrir leik

Það vantaði mikilvæga leikmenn í bæði lið í kvöld. Hjá Haukum var bandarískur leikmaður þeirra Dee Davis enn frá vegna meiðsla og þá vantaði bæði Hörð Axel Vilhjálmsson og Jaka Brodnik í lið Keflavíkur.

Gangur leiks

Það voru heimamenn í Keflavík sem byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Leyfðu þristunum að rigna á upphafsmínútunum og uppskáru væna forystu eftir fyrsta leikhluta, 36-19. Nokkuð olíklegar hetjur sem létu sjá sig sóknarlega hjá Keflavík í þessum fyrsta fjórðung, þar sem Ólafur Ingi Styrmisson var stigahæsti leikmaður vallarins með 10 að honum loknum. Enn bætir Keflavík svo við forskot sitt í upphafi þess annars. Eru mest 28 stigum yfir, en Haukar gera vel að vinna það niður og halda þessu í leik. Staðan 61-49 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Domynikas Milka með 15 stig á meðan að Daniel Mortensen var kominn með 14 stig fyrir Hauka.

Seinni hálfleikurinn fór ekki sóknarlega af stað á sama hraða og sá fyrri hafði endað. Bæði lið virtust hafa farið yfir varnarleik í hálfleik og úr urðu nokkrar mínútur þar sem bæði lið áttu erfitt með að skora. Með herkjum ná Haukar þó að halda sér inni í leiknum út þriðja fjórðunginn, en staðan fyrir þann fjórða var 86-68. Í lokaleikhlutanum gerir Keflavík svo það sem þarf til þess að sigla að lokum nokkuð öruggum 22 stiga sigur í höfn, 106-84.

Atkvæðamestir

Dominykas Milka var bestur í liði Keflavíkur í kvöld með 25 stig og 9 fráköst. Fyrir Hauka var það Daniel Mortensen sem dró vagninn með 23 stigum og 7 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst eftir landsleikjahlé. Haukar þann 20. nóvember gegn ÍR í Ólafssal á meðan að Keflavík heimsækir Þór Þorlákshöfn degi seinna.

Tölfræði leiks