Valur lagði KR á Meistaravöllum í kvöld í 6. umferð Subway deildar karla, 77-110. Eftir leikinn er Valur í efsta sæti deildarinnar með fimm sigra og eitt tap á meðan að KR er í 10. sætinu með einn sigur og fimm töp.

Fyrir leik

Leikur kvöldsins fór nokkuð seinna af stað heldur en áætlað var, en samkvæmt heimildum var það vegna bilunar í tölfræðikerfi íþróttahússins.

Fyrir leik tilkynnti KR það að bakvörðurinn Björn Kristjánsson yrði ekki meira með liðinu á tímabilinu vegna meiðsla, en hann hefur aðeins náð tveimur leikjum með þeim í deildinni það sem af er.

Gangur leiks

Eftir að hafa byrjað ágætlega og skorað tvær fyrstu körfur leiksins missa heimamenn öll völd á leiknum og fá á sig 8-0 áhlaup frá Val. KR þó fljótir að ná áttum og er leikurinn í nokkru jafnvægi út fyrsta fjórðunginn þó svo að gestirnir hafi náð að vera skrefinu á undan, 17-21. Í öðrum leikhlutanum ná gestirnir að sökkva tönnum sínum almennilega í leikinn. KR reyna að hleypa upp hraðanum á leiknum og ná því ágætlega. Eru hinsvegar að setja lítið af skotum á meðan að Valsmenn byggja sér upp góða forystu, staðan 31-52 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var EC Matthews með 10 stig á meðan að Kristófer Acox var kominn með 12 stig fyrir Val.

Gestirnir úr Hlíðunum ná áfram að halda forskoti sínu í upphafi seinni hálfleiksins. KR virtust alls ekki líklegir til þess að ætla að spila sig inn í leikinn í þeim þriðja, sem endar með sama mun, 21 stigi, 56-77. Heimamenn ná í nokkur skipti að koma forystu Vals inn fyrir 20 stigin í upphafi þess fjórða. Aftur, aldrei þannig að þeir væru líklegir til þess að gera þetta að leik. Undir lokin gerir Valur svo bara það sem þarf til þess að sigla að lokum mjög svo öruggum sigur í höfn, 77-110.

Atkvæðamestir

Fyrir KR var Jordan Semple atkvæðamestur með 16 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar. Fyrir Val var það Kári Jónsson sem dró vagninn með 17 stigum, 6 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi föstudag 25. nóvember. Valur fær Hött í heimsókn og KR heimsækir Keflavík.

Tölfræði leiks