Georgía lagði Ísland í kvöld í undankeppni HM 2023, 85-88. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í undankeppninni, hvort um sig með fjóra sigra og þrjú töp.

Hérna er heimasíða mótsins

Fyrir leik

Fyrir leikinn var staða Íslands nokkuð sterk í L riðil, liðið er með fjóra sigra, tvö töp og í 3. sæti, en efstu þrjú lið riðilsins komast á lokamótið. Georgía var hinsvegar ekki langt undan, aðeins einum sigurleik fyrir aftan og enn með góða möguleika á að tryggja sér sæti á lokamótinu.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað. Þar sem liðin skiptust á sínum fyrstu körfum strax á fyrstu mínútunni. Áhyggjuefni fyrir Georgíu hinsvegar að á þessari fyrstu mínútu fór einn lykilleikmanna þeirra Giorgi Shermadini útaf meiddur og kom ekki aftur fyrr en undir lok fyrsta fjórðungs. Það virtist þó ekki gera annað en efla Georgíu að missa hann af velli, sem fara í beinu framhaldi í gott 13-3 áhlaup. Íslenska liðið nær þá áttum nokkuð fljótt eftir þetta áhlaup Georgíu, en eru samt 9 stigum undir þegar fyrsti er á enda, 17-26.

Með nokkrum góðum varnartöktum og körfum frá Elvari Már og Kára nær Ísland að stoppa í gatið í upphafi annars fjórðungs. Eru komnir tveimur stigum frá þegar að leikhlutinn er tæplega hálfnaður, 29-31. Undir lok hálfleiksins nær íslenska liðið að halda leiknum tiltölulega jöfnum, en þökk sé nokkrum vafasömum, eða heimskum villum undir lok annars fjórðungs er Georgía enn með þægilega 7 stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 38-45.

Það er erfitt að segja hvað virkaði vel fyrir Ísland þessar fyrstu 20 mínútur leiksins. Áttu oft á tíðum virkilega erfitt með að ná sér í körfu á meðan þeir gáfu alltof mörg auðveld stig á hinum enda vallarins. Alltof oft eftir sóknarfráköst, vafasamar villur eða til Tornike Shengelia, sem var með 14 í fyrri hálfleiknum og þeir virtust ekkert ráða við.

Íslenska liðið mætir dýrvitlaust inn í seinni hálfleikinn og nær að skera niður forystu Georgíu. Með laglegum þrist frá Ægi Þór Steinarssyni ná þeir svo að komast yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar rétt rúmar 6 mínútur eru eftir af þeim þriðja, 49-48. Með góðum kafla í beinu framhaldi ná þeir svo aðeins að sökkva tönnum sínum í leikinn, ná mest 7 stiga forystu undir lok þess þriðja, 60-53, en eru 3 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 63-60.

Ísland kemst 8 stigum yfir í upphafi þess fjórða, 68-60, en gestirnir frá Georgíu eru fljótir að loka því gati aftur með tveimur þristum. Íslenska liðið spilaði með miklu sjálfstrausti þessar fyrstu mínútur fjórða leikhlutans á meðan að Georgía virtist vera í nokkrum vandræðum. Gestirnir virtust samt sem áður ná að setja nokkur stór skot og koma í veg fyrir að Ísland næði að skapa sér alvöru forystu. Þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum leiddi Ísland með 3 stigum, 72-69. Íslenska liðið komið í nokkur villuvandræði á þessum tímapunkti, þar sem að Jón Axel fær sína fimmtu villu þegar um fjórar mínútur eru eftir og Kristófer spilar á fjórum.

Á lokamínútunum nær Georgía tökum á leiknum aftur og þegar tæpar 2 mínútur eru til leiksloka leiða þeir með 5 stigum, 76-81. Undir lokin gegngur íslenska liðinu erfiðlega að skora á þessum lokakafla, en á einhvern undraverðan hátt ná þeir að setja leikinn í járn á nýjan leik. Elvar Már setur risastóran þrist þegar 47 sekúndur lifa af leiknum og Ísland aðeins stigi undir, 82-83. Georgía kemst á línuna í sókninni á eftir og setur 2 stig, 82-85.

Í sókn Íslands þar á eftir er brotið á Elvari þegar 14 sekúndur eru eftir og hann klikkar úr öðru, 83-85. Ísland brýtur beint aftur í sókn Georgíu og þeir brenna einnig af einu. Staðan 83-86, 12 sekúndur eftir og Ísland með boltann. Georgía brýtur beint á Tryggva, sem setur annað niður, 84-86 og Ísland setur Georgíu síðan aftur á línuna, nú rúmar 8 sekúndur eftir. Georgía setur annað og kemur forystu sinni aftur í 3 stig, 84-87. Sigtryggur Arnar nær undir lok klukkunnar að fara upp í þriggja stiga skot þar sem brotið er á honum, dómararnir dæma samt bara tvö víti, þar sem þeir hafa væntanlega haldið því fram að hann hafi ekki verið á leiðinni upp í skot. Arnar setur fyrra, en tilraun Íslands til þess að ná frákasti þess seinna klikkar. Að lokum fer Georgía í eitt lokaskipti á línuna og vinna leikinn með 3 stigum, 85-88.

Atkvæðamestir

Tryggvi Snær Hlinason var bestur í liði Íslands í dag með 15 stig og 10 fráköst. Honum næstir voru Elvar Már Friðriksson með 19 stig, 6 stoðsendingar og Ægir Þór Steinarsson með 16 stig og 3 fráköst.

Hvað svo?

Næsti leikur Íslands í riðlinum er komandi mánudag 14. nóvember gegn Úkraínu í Lettlandi.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil