Áttunda umferð Subway deildar kvenna fór fram í kvöld. Í Breiðholtinu tóku heimakonur í ÍR á móti Haukum. ÍR enn án sigurs á meðan Haukar höfðu einungis tapað einum leik.

Óhætt er að segja að stöðumunurinn á liðunum hafi skilað sér á völlinn. ÍR setti einungis 1 stig í fyrsta leikhluta, það var vítaskot Aníku Lindu eftir tæplega átta mínútna leik. Haukar settu þrjátíu stig í sama leikhluta og þar með var úti um ævintýri.

Staðan í hálfleik var 12-54 fyrir Haukum. Seinni hálfleikurinn var síðan bara formsatriði, ÍR settu mun fleiri stig þar en forysta Hauka aldrei nálægt því að vera í hættu. Lokastaðan 49-93 fyrir Haukum.

Keira Robinson daðraði við þrennuna með 17 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar í kvöld fyrir Hauka. Sólrún Inga Gísladóttir var stigahæst með 21 stig. Greta Upruus var stigahæst hjá ÍR með 15 stig og bætti 6 fráköstum við það.