Haukar lögðu Val í kvöld í 9. umferð Subway deildar kvenna, 76-89. Eftir leikinn eru Haukar í 2. sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að Valur er tveimur leikjum fyrir aftan með 12 stig.

Fyrir leik

Liðin höfðu í eitt skipti mæst í deildinni áður í vetur. Þann 28. september unnu Haukar mjög svo öruggan sigur á Val heima í Ólafssal, 77-62. Í þeim leik má segja að enginn af leikmönnum Vals hafi náð sér á strik á meðan að Keira Robinson skilaði 27 stigum, 10 fráköstum og 7 stoðsendingum fyrir Hauka.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Hafnarfirði sem byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Keira Robinson hélt uppteknum hætti úr fyrsta leik liðanna í byrjun leiks og sallaði niður 16 stigum í fyrsta fjórðungnum. Lengst af hélt vörn Hauka líka og voru þær 14 stigum á undan fyrir annan leikhlutann, 17-31. Mest komast Haukar 18 stigum yfir undir lok fyrri hálfleiksins, en með góðu áhlaupi í lok annars leikhlutans ná heimakonur að laga stöðu sína og halda þessu í leik. Munurinn 7 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 36-43.

Mikið til voru það Keira Robinson (18 stig) og Eva Margrét Kristjánsdóttir (13 stig) sem voru að gera hlutina á sóknarhelmingi Hauka í fyrri hálfleiknum á meðan að fyrir Val var Dagbjört Dögg Karlsdóttir komin með 10 stig.

Aftur missa heimakonur Hauka aðeins frá sér í þriðja leikhlutanum. Mest 16 stigum. Þær ná þó aftur að koma til baka og nánast halda fengnum hlut inn í lokaleikhlutann, 57-67. Mestu munaði þar um góðan þriðja leikhluta Kiana Johnson hjá Val, en hún setti 9 stig í fjórðungnum eftir að hafa verið afleit í fyrri hálfleiknum. Í fjórða leikhlutanum ná Haukar að halda út gegn mjög misgóðum atrennum Hauka til þess að komast inn í leikinn aftur. Niðurstaðan að lokum 13 stiga sigur Hauka, 76-89.

Atkvæðamestar

Atkvæðamestar fyrir Hauka í leiknum voru Eva Margrét Kristjánsdóttir með 24 stig, 12 fráköst og Keira Robinson með 26 stig og 9 stoðsendingar. Fyrir Val var það Ásta Júlía Grímsdóttir sem dró vagninn með 18 stigum og 9 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þann 16. nóvember. Þá heimsækir Valur nýliða ÍR í Skógarsel á meðan að Haukar fá Keflavík í heimsókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)