Í Gróðurhúsinu á Flúðum buðu heimamenn í liði Hrunamanna og liðsmenn Sindra frá Hornafirði áhorfendum upp á mikla skemmtun. Leikur liðanna var jafn og spennandi frá upphafi til enda ef frá er talinn örstuttur kafli rétt undir lok venjulegs leiktíma þegar gestirnir frá Hornafirði höfðu náð 10 stiga forystu og sigurinn virtist vera að sigla til þeirra. Þá gerði Konrad þjálfari Hrunamanna breytingu sem færði liði hans aukið fjör og nægilega mikla orku til þess að jafna leikinn og koma honum í framlengingu. Konrad tók Yngva Frey Óskarsson af velli fyrir Friðrik Heiðar Vignisson. Yngvi Freyr hafði leikið mjög vel í leiknum, frákastað vel og sett upp góðar hindranir. Friðrik hafði byrjað leikinn af krafti en verið óheppinn með villur sem hann fékk dæmdar á sig og lent í því að sitja lengi á bekknum. Það reyndist gott fyrir Konrad að eiga þann hauk í horni í lokin. Friðrik tók leikinn ekki yfir einn og sjálfur en innkoma hans efldi samherjana og blés lífi í leik þeirra. Í framlengingunni var áfram sama jafnræðið með liðunum og verið hafði nema Hrunamenn leiddu og náðu að halda þeirri naumu forystu allt til enda, lokatölur 110-105.

Í liði gestanna var framlag leikstjórnandans Ismaels Gonzalez mikilvægt. Hann hitti 7 af 9 þriggja stiga skotum og gaf 7 stoðsendingar og var allt í öllu í sóknarleik Sindra. Tyler Steward var líka drjúgur og Oscar Jorgensen sömuleiðis, einkum eftir því sem leið á leikinn. Árni villaði út í 4. leikhluta og Iba var í villuvandræðum í síðari hluta leiksins.

Amhad Gilbert skoraði 44 stig fyrir Hrunamenn, tók 14 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Sam Burt sækir sífellt í sig veðrið. Í kvöld tók hann 12 fráköst og skoraði 31 stig og staðsetti sig vel í vörn undir körfunni. Eyþór Orri var að vanda mikilvægur liðinu með 8 fráköst, 5 stoðsendingar og ásamt Amhad dregur hann vagninn fyrir Hrunamenn. Áður hefur verið minnst á áhrif Friðriks og Yngva. Óðinn Freyr Árnason og Hringur Karlsson komu af bekknum og skiluðu góðu framlagi. Hringur spilaði hörkuvörn gegn stóru og sterku strákunum í Sindra og eins gegn Oscari hinum danska. Óðinn er góð skytta og er alltaf líklegur til þess að hitta þriggja stiga skotunum en í kvöld var það ekki síður varnarframlag hans sem réði úrslitum og tryggði Hrunamönnum sigurinn.

Deildin er að spilast skemmtilega. Liðin tína stig hvert af öðru og engin leið er að spá fyrir um úrslit leikja. Hrunamenn hafa sigrað fjóra leiki en tapað jafnmörgum. Sindri hefur tapað 2 en unnið 6. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Birgitte Bruger)

Önnur úrslit kvöldsins