Hin efnilega Emma Sóldís Hjördísardóttir hefur samið við Liberty háskólann í Bandaríkjunum að leika með liðinu næstu fjögur árin. Liberty háskólinn er í Virginu fylki og leikur í efstu deild í Bandaríska háskólaboltanum.

Emma hefur þrátt fyrir ungan aldur verið í lykilhlutverki liða sinna síðustu ár. Nú með Haukum en áður með Fjölni þar sem hún átti frábær tímabil. Einnig hefur hún leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.

Í tilkynningu ANSAathletics segir:

Þetta er fyrsti samningurinn hjá iðkanda hjá ANSAathletics fyrir hópinn sem fer í nám haustið 2023. Þrátt fyrir ungan aldur er Emma ein af fremstu körfuknattleikskonum landsins. Emma fer utan eftir að hafa spilað í Subway deild kvenna með Fjölni og nú með Haukum. Hún hefur auk þess leitt 16 og 18 ára landslið Íslands með glæsilegum árangri í keppni erlendis.

Það eru hvorki meira né minna en 47 þúsund nemendur í Liberty háskólanum. Það er mikill metnaður og gríðarleg uppbygging í Liberty og öll aðstaða til fyrirmyndar. Spilað er í glænýrri körfuboltahöll og liðið flýgur í útileiki á flugvél á eigin vegum svo dæmi séu nefnd.

Þess má einnig geta að samkomulag við Liberty tók afar skamman tíma, en þjálfarar liðsins þekktu vel til Emmu, styrkleikum hennar og leiðtogahæfileikum frá leikjum hennar með U18 landsliðinu í sumar.

Liberty spilar í nýrri deild næsta tímabil, Conference USA sem er í fyrstu deild (D1) og samanstendur af sterkum skólum vítt og breitt um Bandaríkin. Þess má geta að Seth Curry, leikmaður Brooklyn Nets og bróðir Steph Curry, spilaði með Liberty háskólanum á sínum tíma.