Í upphafi undirbúnings tímabils virtist glitta í að Jón Guðmundsson fyrrum yngriflokka þjálfari og dómari væri að hlaða í myndarlega endurkomu í gráa búninginn og virtist það gleðja margan leikmanninn og þjálfara deildarinnar. Það hefur hins vegar lítið sést af Jóni það sem af er tímabili í Subway deildinni og hefur Karfan.is fengið fyrirspurnir um að kanna málið. Við hleruðum Jón um mögulega endurkomu sína í dómara búninginn og komu svör hans verulega á óvart. 

“Já hugmyndin var að koma til baka að dæma og ég dæmdi nokkra leiki í æfingamótum eins og Glacial-mótinu og Péturs-mótinu.  Svo  tók ég einhverja yngri flokka leiki og neðri deildar leiki sem þarf auðvitað að dæma líka og ég var alls ekki á móti því. Mér leið vel með þetta og fannst eins og ég hafi aldrei stigið frá þessu.  En það virtist ekki vera not fyrir mig í Subway-deildum og mér var sagt að minn tími kæmi, að það tæki bara tíma og þegar ég fékk ekki leik í síðustu umferð í október þá ákvað ég að hætta við þessa góðu tilraun að koma til baka í dómgæslu. Það var sem sagt erfitt að finna pláss fyrir mig í þessu þar sem það voru aðrir á þeim stað sem ég var að reyna að komast á samkvæmt dómaranefnd.” sagði Jón Guðmundsson í samtali og bætti við, ” Kannski er maður að ofmeta sjálfan sig en ég veit alveg hvað ég kann og get í þessu eftir að hafa þjálfað körfubolta í 38 ár og dæmt í 16-17 ár, taldi mig ekki þurfa teljandi aðlögun þar sem ég hef fylgst með regluverkinu og breytingum á því nokkuð stíft þó svo að ég hafi verið frá dómgæslunni sem slíkri.”  

Jón Guðmundsson er einn tveggja dómara sem hefur orðið dómari ársins síðastliðin tæp 20 ár en þess á milli hefur Sigmundur Már Herbertsson einokað þann titil. Miðað við þessa staðreynd og viðbrögð þjálfara og leikmanna sem leitað hafa svörum frá Karfan.is þá kemur það nokkuð á óvart að Jón hafi ekki fengið leiki í Subway-deild karla nú í fyrstu umferðum mótsins. ” En fremur hefur dómaranefnd tekið fyrir það að ég dæmi í Subway deild kvenna þar sem að dóttir mín þjálfi eitt liðið þar. Maður hefði ýmindað sér að leikir Fjölnis væru þá á mínum bannlista en ekki öll deildin, eða rétt eins og þegar önnur dóttir mín spilaði í deildinni og ég dæmdi ekki hennar leiki.  En miðað við álagið á dómurum í fyrra þá hélt ég í barnslegu eðli mínu að komu minni yrði fagnað aftur í stéttina. Það má taka það fram að einn af virtari dómurum í deildinni í dag hefur haft samband við mig og furðað sig á þessari útkomu og harmar þetta. ” sagði Jón ennfremur. 

Í fyrirspurn til dómaranefndar fengust ekki svör við þeirri spurningu um hvort reglur væru um aðlögun dómara eftir fjarveru en dómarnefnd sögðu það ákvörðun Jóns að hverfa frá endurkomu í dómgæslu og fannst það miður.  

Jón Guðmundsson á spjalli við Stefan Bonneau

“Ég veit það eiginlega ekki hvort séu einhverjar sérstakar reglur um aðlögun eftir að hafa verið frá dómgæslu í einhvern tíma. Í það minnsta fékk ég ekkert í hendurnar með það. Virtist vera meira svona geðþóttar ákvörðun hvenær ég væri “tilbúinn”  En ég veit hinsvegar um dæmi þess að dómarar hafa komið tilbaka eftir álíkan tíma og ég í þetta skiptið og rúllað beint inn í efstu deildar leiki.” 

Sem fyrr segir hafði Karfan.is borist fyrirspurnir um þessa meintu endurkomu Jóns í dómaratreyjuna,  en þá er spurning hvort einhverjir hafi heyrt í Jóni varðandi málið. “Já það hafa þó nokkuð margir hlerað mig og hefur mér þótt vænt um það. Mest eru þetta leikmenn og þjálfarar sem hafa furðað sig á þessu.”