Tindastóll tók á móti Haukum í VÍS bikar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

Tindastólsmenn söknuðu enn Arnars Björnssonar sem var að jafna sig á meiðslum sem hann hlaut á æfingu í liðinni viku en Adomas Drungilas kom aftur inn í liðið. Haukar voru á töluverðri siglingu eftir tvo sigra í Subway deildinni gegn Hetti og Þór Þ, en voru án bandarísks leikmanns síns Dee Davis í kvöld.

Gestirnir fóru af stað með miklum krafti og eftir að Hilmar Hennings og Drungilas höfðu skipst á þristum náðu Haukar frumkvæðinu og skoruðu næstu 10 stig, staðan 3-13 og fyrsti leikhluti hálfnaður. Stólar tóku leikhlé og náðu að vinna sig hægt og bítandi inn í leikinn aftur en gekk frekar erfiðlega að koma boltanum í körfuna. Að loknum fyrsta fjórðung leiddu gestirnir með einu stigi 16-17. Heimamönnum í Síkinu þótti ekki mikið til dómgæslunnar koma í fyrri hálfleik og létu heyra vel í sér og það virtist sem leikmennirnir smituðust af pirringi áhorfenda og hittnin var ekki upp á sitt besta. Eftir að leikurinn hafði verið stál í stál mestallann annan leikhluta var Tindastóll þó sterkara liðið undir lok hans og fóru með naumt forskot inn í hálfleikinn 35-33.

Eftir góða körfu frá Orra í upphafi seinni hálfleiks náðu Stólarnir að rykkja aðeins frá gestunum og komust í 46-37 eftir þrist frá Badmus sem hafði haft frekar hægt um sig. Maté tók leikhlé en Taiwo svaraði með öðrum þrist og munurinn kominn í 10 stig. Stólar náðu að halda þessum mun út leikhlutann og reyndar gott betur þar sem Keyshawn skoraði síðustu 5 stig hans án andsvars frá Haukum. Í upphafi fjórða leikhlutans tók við sama baráttan þó Haukar virkuðu þreyttir þá sá Hilmar Smári um að halda þeim inni í leiknum með 8 stigum í röð. Alexander kom muninum í 7 stig 67-60 þegar rúmar 5 mínútur lifðu leiks en braut svo klaufalega á Taiwo Badmus í næstu sókn Stóla og uppskar óíþróttamannslega villu. Taiwo setti bæði vítin og svo tvö til viðbótar og þristur frá Vrkic kom muninum skyndilega í 14 stig, allt á innan við mínútu af leiktíma. Hilmar svaraði með and 1 play en þarna virtust Haukarnir búnir að gefast upp og Tindastóll sigldi heim nokkuð öruggum sigri 88-71.

Hjá gestunum var Hilmar Smári langöflugastur og endaði með 20 stig. Hjá heimamönnum átti Keyshawn flottan leik með 27 stig og 8 fráköst og 30 framlagsstig. Taiwo bætti við 25 stigum og Vrkic 18. Frábær stemning var á pöllunum í Síkinu þar sem mættu 500 manns.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna