Tindastóll tók á móti Snæfelli í fyrstu deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

Leiknum var frestað í gær vegna veðurs og færður á þetta mánudagskvöld. Stólastúlkur byrjuðu leiktíðina með sigri gegn b-liði Breiðabliks en höfðu síðan tapað gegn Þór Ak. og Ármanni á meðan Snæfell hafði innbyrt 2 sigra eftir tap gegn KR í fyrsta leik sínum.

Leikurinn hófst fjörlega og heimastúlkur náðu forystunni en upp úr þriðju mínútu náðu gestirnir að rykkja aðeins frá og kláruðu fyrsta leikhlutann með 11 stiga forystu 12-23. Tindastóll var að tapa boltum í sókninni og gekk illa að ráða við erlenda leikmenn Snæfells auk þess sem Rebekka Rán var að gera vel í að stjórna sóknarleik gestanna. Annar leikhluti var síðan líklega ekkert sem liðin vilja muna lengi eftir þar sem hittni var afleit og mikið um tapaða bolta. Snæfell bætti þó aðeins í forystuna og vann leikhlutann 7-9, staðan 19-32 í hálfleik.

Tindastólsstúlkur komu ákveðnari inn í seinni hálfleikinn og náðu að minnka muninn. Þar munaði mestu um framlag Chloe sem skoraði 14 af 18 stigum Tindastóls í leikhlutanum og var í raun sú eina sem var ógn af í sóknarleik þeirra. Hinumegin var Cheah Whitsitt öflug og sá til þess að heimastúlkur komust ekki nær. Tindastóll kom með krafti inn í 4. leikhlutann og náði að minnka muninn í 8 stig með þristi frá Chloe eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Game on og fjölmargir áhorfendur í Síkinu tóku við sér.

Tindastóll náðu þó ekki að fylgja þessu áhlaupi eftir og Snæfell sigldi örugglega lengra framúr. Góður þristur frá Rebekku Rán slökkti síðustu vonir heimastúlkna þegar um 3 og hálf mínúta lifði leiks, Snæfell 15 stigum yfir og þær unnu svo lokamínúturnar með 2-11 kafla.

Hjá Tindastól var það Chloe Rae Wanink sem dró vagninn, skoraði 33 stig og 32 framlagsstigum. Stólar verða að ná fleiri leikmönnum með í sókninni til að ógna. Hjá Snæfelli var Cheah gríðarlega öflug með sannkallaða tröllatvennu, 30 stig og 20 fráköst og heil 48 framlagsstig! Rebekka Rán stjórnaði leik gestanna af öryggi með 16 stig og stal 4 boltum. Bekkurinn ekki djúpur hjá Snæfelli en 3 leikmenn léku allar mínútur leiksins.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hjalti Árna)

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna