Í 5. umferð Íslandsmótsins í 1. deild karla tóku Hrunamenn á móti Skallagrími í Gróðurhúsinu á Flúðum. Leiknum lauk með sigri gestanna frá Borgarnesi 113-94. Björgvin Hafþór Ríkharðsson átti stórleik og skoraði 29 stig og tók 14 fráköst og Davíð Ólafsson hitti 6 þriggja stiga skotum úr 7 tilraunum.

Skallagrímur hóf leikinn af mikilli ákefð sem skilaði sér í traustum varnarleik og hröðum sóknum. Ákafinn var svo mikill að sóknarleikur liðsins á hálfum velli var meiri en mannskapurinn réð við og nokkuð var um misheppnaðar sendingar og tapaða bolta. Hraðaupphlaup Skallgrímsmanna gengu afbragðsvel og skilaði liði þeirra 43 stigum. Hrunamenn fengu 14 stig úr hraðupphlaupum. Í 1. leikhluta var lítið að frétta hjá heimamönnum. Hraði leiksins hentaði þeirri liðskipan sem þá var á vellinum illa. Í öðrum leikhluta lifnaði yfir leik heimamanna. Ahmad Gilbert var öflugur og með innkomu Hrings Karlssonar og Þorkels Jónssonar af bekknum fékk liðið hlaupaleiðir og eiginleika sem ræsti bakverðina sem mötuðu félagana á góðum sendingum. Þrátt fyrir drjúgan þátt við að bæta leik Hrunamanna stöldruðu Hringur og Þorkell stutt við á vellinum og komu ekki aftur við sögu. Friðrik Heiðar Vignisson sem hafði verið eini Hrunamaðurinn sem mætti gestunum með sama krafti og þeir lögðu í leikinn í 1. leikhlutanum spilaði ekkert í 2. leikhluta. En hann átti eftir að koma með mikilvægt framlag fyrir sína menn í síðari hálfleik. Í hálfleik var staðan 47-54 fyrir Skallagrím.

Fjörið byrjaði fyrir alvöru í seinni hálfleik. Hrunamenn þéttu vörnina undir körfunni og lokuðu leið Björgvins Hafþórs að körfunni. Við það riðlaðist leikur Skallagríms því leikmenn liðsins hittu illa fyrir utan og gekk heldur ekkert á póstinum gegn Yngva Frey og Samuel Burt. Hrunamenn náðu að koma sér inn í leikinn og náðu forystunni í smástund. Hrunamenn leyfðu Björgvini að skjóta þristum sem hann hitti ekki en hindruðu hann þegar hann réðst að körfunni. Meðan best gekk hjá Hrunamönnum í síðari hálfleik festist Konrad Tota þjálfari liðsins alltof lengi með sömu leikmennina á vellinum. Í 4. leikhluta fór að draga af þeim, sérstaklega í sókninni þar sem sendingar fóru að mistakast og skotin að geiga. Skotnýting Skallagrímsmanna hafði verið afleit framan af leik en í 4. leikhluta hittu þeir skotunum utan af velli og náðu þannig að sækja sigur.

Auk Björgvins Hafþórs og Davíðs bar mest á Keith Jordan Jr. í liði Skallanna. Hann skoraði 34 stig, gaf 10 stoðsendingar, tók 9 fráköst og fiskaði 9 villur. Hjá Hrunamönnum var Ahmad Gilbert atkvæðamestur með 32 stig, 15 fráköst og 6 stolna bolta. Samuel Burt skoraði 25 stig og tók 8 fráköst. Eyþór Orri fann sig vel með 14 stig og 9 stoðsendingar. Friðrik Vignir átti góðan leik en tölfræðin nær ekki yfir þá þætti sem hann gerði best í leiknum. Leikur Hrunamanna og Skallagríms var hin ágætasta skemmtun.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Birgitte Bruger)

Úrslit kvöldsins