ÍA tók í kvöld á móti Hvergerðingum í Hamri á Vesturgötunni á Akranesi í kvöld.  Fyrir leik voru liðin í 5. og 6. sæti deildarinnar og einu liðin í deildinni eftir tvær umferðir til að hafa bæði unnið leik og tapað leik á tímabilinu.

Leikurinn í kvöld var mikil skemmtun og má segja að leikurinn hafi boðið upp á allt sem einn körfuboltaleikur hefur uppá að bjóða.  Jafnræði var með liðunum nánast allan leikinn.  Jose Medina lék gríðarlega vel allan leikinn fyrir gestina og Ragnar Nathanaelsson fór mikinn til að byrja með en lenti svo í villu vandræðum og heimamenn með Lucien Christofis fremstan í flokki gengu á lagið um leið og Ragnar var utan vallar og leiddi ÍA með þriggja stiga mun í hálfleik 44-41.


Seinni hálfleikur byrjaði svo með sama hamagangnum, Hamar setti strax þrist og jafnaði leikinn og jafnræði var með liðunum alveg fram í fjórða leikhluta en ÍA náði þá 10 stiga forystu en Hamarsmenn tóku nokkur áhlaup og minnkuðu oftar en ekki muninn en þristar frá Tómasi Andra Bjartssyni og áframhaldandi framlag frá Lucien gerði gæfu muninn og 93 – 86 sigur ÍA staðreynd og annar sigur þeirra í röð í deildinni.

Athyglisverðir punktar úr leiknum:

*Hamarsmenn létu mótlæti í leiknum fara mun meira í taugarnar á sér heldur en ÍA sem endaði með því að einn leikmaður og þjálfari þeirra þurftu að yfirgefa salinn áður en leiknum lauk.

*Bekkurinn hjá ÍA skilaði 17 stigum í kvöld á móti 4 stigum frá bekk Hamars.

*Harmar setti 21 stig úr hraðaupphlaupum á móti 9 hjá ÍA,

*ÍA lauk leik með 50% þriggja stiga nýtingu (16/32) en 40% tveggja stiga nýtingu (14/35).

*Hamar hitti 9 af fyrstu 9 vítum sínum í leiknum en svo 4 af 10 eftir það.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / HH