Valur lagði Grindavík í kvöld í 5. umferð Subway deildar kvenna, 72-80. Eftir leikinn er Valur með þrjá sigra og tvö töp á meðan að Grindavík er með einn sigur í fyrstu fimm umferðunum.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins hafði Valur unnið tvo leiki og tapað tveimur á meðan að Grindavík var með aðeins einn sigur úr fyrstu fjórum leikjum sínum.

Gangur leiks

Heimakonur í Grindavík byrjuðu leik kvöldsins betur. Er skrefinu á undan á upphafsmínútunum og ná undir lok fyrsta leikhluta að skapa sér smá forystu og leiða með 9 stigum eftir fyrsta fjórðung, 24-15. Áfram halda þær svo áfram að bæta við forskot sitt undir lok fyrri hálfleiksins, fara mest 14 stigum yfir í öðrum fjórðungnum, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik hafa gestirnir aðeins rétt sinn hlut, 39-32. Nokkuð bar á villuvandræðum í fyrri hálfleiknum og þá sérstaklega hjá liði Vals, þar sem lykilleikmaður þeirra Ásta Júlía Grímsdóttir var komin með 3 villur eftir aðeins rúmar 9 mínútur spilaðar.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Danielle Rodriguez með 12 stig á meðan að Dagbjört Dögg Karlsdóttir var komin með 7 stig fyrir Val.

Seinni hálfleikuruinn fór nokkuð fjörlega af stað. Valskonum tókst að hleypa hraða leiksins upp og með nokkrum góðum þristum frá Kiana Johnson og Hallveigu Jónsdóttur náði liðið að vinna niður forskot heimakvenna og komast yfir, 47-49, þegar rúmar 5 mínútur voru eftir að þriðja fjórðung. Leikurinn er svo í járnum út leikhlutann, staðan fyrir þann fjórða 58-60 fyrir Val.

Valskonur ná svo að vera nokkrum körfum á undan í upphafi lokaleikhlutans og eru 7 stigum yfir þegar að rúmar 4 mínútur eru eftir að leiknum, 66-73. Heimakonur gera álitlega tilraun að forystu Vals á lokamínútunum, en allt kemur fyrir ekki. Valur stendur að lokum uppi sem sigurvegari, 72-80.

Atkvæðamestar

Danielle Rodriguez var best í liði Grindavíkur í kvöld með 19 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Ekki langt undan var Elma Dautovic með 20 stig og 7 fráköst.

Fyrir Val var Kiana Johnson atkvæðamest með 28 stig, 7 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Þá bætti Elín Sóley Hrafnkelsdóttir við 8 stigum og 12 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi sunnudag 23. október. Valur fær Fjölni í heimsókn á meðan að Grindavík fer til Keflavíkur.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)